Fara í innihald

Soka Gakkai

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Soka gakkai)

Soka Gakkai International (SGI) eru samtök búddista með rúmlega 12 milljónir meðlima í 192 löndum og svæðum um allan heim. Fyrir meðlimi SGI er búddismi virk heimspeki sem stuðlar að jákvæðum hugarfarsbreytingum einstaklingsins, hvatningu til sjálfsþroska og ábyrgðar á eigin lífi.

Soka Gakkai var stofnað 18. nóvember 1930, sem trúfélag á Nichiren búddisma. Markmið félagsins var að endurbæta Japanska skólakerfið og stofnandi þess Tsunesaburo Makiguchi gaf út bók þar sem trúað er að menntun, sjálfsvitund, viska og þroski leiði af sér ótakmarkandi möguleika. Á sama ári byrjaði heimstyrjöldin síðari og síðan þá hefur félagið stefnt að betrun samfélagsins í heild sinni. Við þessar breytingar tók Josei Toda við félaginu af forvera sínum og var forseti félagsins til ársins 1960.

Árið 1960 tók Daisaku Ikeda við sem arftaki Toda. Hann var 32 ára þegar hann varð forseti Soka Gakkai árið 1960. Undir hans leiðsögn héldu samtökin áfram að vaxa og tóku upp víðtækari stefnu. Alþjóðasamtök Soka Gakkai voru stofnuð 1975 vegna ört vaxandi fjölda meðlima um allan heim. Í dag eru samtökin alþjóðleg hreyfing sem starfar í 190 löndum og svæðum. SGI á Íslandi var stofnað 17. júní 1980.

Til að minnast stofnunar SGI leggur Ikeda fram þann 26. janúar ár hvert, tillögur til Sameinuðu þjóðanna þar sem hann bendir á aðferðir til að stuðla að friði.

Nichiren búddismi

[breyta | breyta frumkóða]

Heimspeki Nichiren má rekja til kenninga Shakyamuni, sögulegs upphafsmanns búddismans sem var uppi á Indlandi fyrir um það bil 2.500 árum. Nichiren uppgötvaði að Lótus kenningin (sútran) inniheldur kjarnann í kenningum búddismans og sannleikann sem Shakyamuni uppljómaðist um. Þessi sútra útskýrir að grundvallarlögmálið, svokallað búddaeðli, búi í öllu lífi. Hún staðfestir að allt fólk er fært um að öðlast djúpstæðan skilning á raunveruleika lífsins.

Nichiren var búddamunkur uppi á þrettándu öld í Japan. Nichiren var fullkomlega sannfærður um að búddisminn gerði fólki kleift að takast á við raunveruleg vandamál í dagsins önn, efla lífskraft sinn og breyta lífi sínu til hins betra. Búddismi Nichiren leggur áherslu á djúpstæð tengsl milli okkar eigin hamingju og hamingju annarra. Dýpsta lífsfylling og ánægja fyrir okkar sjálf fæst með því að vinna að hamingju annarra. Kenningar hans staðhæfa að hver einstaklingur, burtséð frá kynþætti, kyni, hæfileikum eða félagslegri stöðu, búi yfir krafti til að yfirstíga óumflýjanleg viðfangsefni lífsins, þróa með sér innihaldsríkt skapandi líf og þannig hafa jákvæð áhrif á sitt nánasta umhverfi, þjóðfélagið og umheiminn.

Meðlimir SGI og gestir þeirra koma saman á mánaðarlegum umræðufundum og ræða um hin ýmsu málefni er varða lífið og tilveruna og hvernig hægt er að nýta kenningar búddismanns í daglegu lífi. Meðlimir samtakanna deila með sér framtíðarsýn um betri heim. Heimspeki búddisma SGI er undirstaða hreyfingarinnar, sem leggur áherslu á frið, menningu og menntun.

Sem leikmenn og „virkir búddistar“ leggja meðlimir SGI sig daglega fram um að þroska með sér trú á lífið, skapa verðmæti við allar kringumstæður og leggja sitt af mörkum fyrir velferð fjölskyldu, vina og samfélagsins. Megin áherslan í starfsemi SGI felst í að efla frið, menningu og menntun.

Samræður þessar og önnur verk hans hafa verið gefin út á 24 tungumálum.

Sem aðildarsamtök og meðlimir Soka Gakkai International (SGI), helgum við okkur þeim markmiðum og hlutverki að leggja okkar af mörkum til friða, menningar og menntunar, með heimspeki og hugsjónir búddhisma Nichiren Daishonin að leiðarljósi.

Við gerum okkur grein fyrir að aldrei fyrr í sögunni hefur mannkynið upplifað samtímis jafn gífurlegar andstæður stríðs og friðar, mismununar og jafnréttis, fátæktar og allsnægta eins og á 20. öldinni.

Þróun á sífellt flóknari hernaðartækni eins og kjarnorkuvopnum hefur skapað ástand þar sem sjálf lífsafkoma mannkynsinsins hangir á bláþræði. Sá raunveruleiki sem felur í sér ofbeldisfulla mismunun og aðgreiningu á þjóðarbrotum og trúarbrögðum býður upp á endalausa hringrás átaka.

Eigingirni og óhóf mannkynsins hafa orsakað vandamál á heimsmælikvarða. Þeirra á meðal eru vanvirðing á náttúrunni og sívaxandi efnahagsleg gjá milli ríkra og fátækra þjóða, sem hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir sameiginlega framtíð mannkynsins.

Við trúum því að búddisminn, mannúðarheimspeki Nichiren Daishonin, byggð á óendanlegri virðingu fyrir helgi lífsins og umhyggju fyrir öllu lífi, geri einstaklingnum fært að rækta og birta meðfædda visku. Hún nærir sköpunargáfu mannsandans sem gerir einstaklingum kleift að yfirstíga erfiðleika og þær ógnir sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þannig getur vonin um samfélög sem þrífast hlið við hlið í friðiog velgengni orðið að veruleika.

Meðlimir og aðildarsamtök SGI eru ákveðin í að halda á lofti merki heimsborgarans, í anda umburðarlyndis og virðingar fyrir mannréttindum, með mannúð búddismans að leiðarljósi. Við tökumst á við þau sameiginlegu vandamál sem mannkynsið stendur frammi fyrir með viðræðum og raunhæfu framtaki byggðu á staðfastri skuldbindingu okkar um baráttu án ofbeldis. Hér með fylgjum við þessari stefnuskrá og staðfestum eftirfarandi ásetninga og grundvallaratriði.

Ásetningar og grundvallaratriði

  1. SGI mun helga sig friði, menningu og menntun, fyrir hamingju og velferð mannkynsins, byggðu á virðingu búddismans fyrir helgi lífsins.
  2. SGI mun samkvæmt hugsjóninni um heimsborgararétt vernda grundvallarmannréttindi og undir engum kringumstæðum mismuna einstaklingum eða fara í manngreinarálit.
  3. SGI mun virða og vernda trúfrelsi og tjáningarfrelsi í trúmálum.
  4. SGI mun efla skilning á búddisma Nichiren Daishonin með persónulegum samskiptum og stuðla þannig að hamingju hvers einstaklings.
  5. SGI og aðildarsamtök þess munu hvetja meðlimi til að leggja sitt af mörkum til að stuðla að velgengni þess þjóðfélags sem þeir búa í með því að reynast góðir þegnar.
  6. SGI mun virða sjálfstæði og sjálfstjórn aðildarsamtaka sinna í samræmi við aðstæður í hverju landi.
  7. SGI mun, samkvæmt kenningum búddismans um umburðarlyndi, virða önnur trúarbrögð, taka þátt í umræðum við fulltrúa þeirra og vinna með þeim að lausn á grundvallarmálefnum sem varða allt mannkynið.
  8. SGI mun virða fjölbreytileika allra menningarsamfélaga, efla menningarsamskipti þeirra á milli og skapa þannig alþjóðasamfélag sem byggist á gagnkvæmum skilningi, sátt og samlyndi.
  9. SGI mun stuðla að verndun náttúru og umhverfis samkvæmt kenningum búddismans um gagnvirkt samband manns og náttúru.
  10. SGI mun leggja sitt af mörkum til að stuðla að menntun í leit að sannleika og þekkingu, til að gera öllum manneskjum kleift að þroska eigin persónuleika og lifa innihaldsríku og hamingjusömu lífi.

Hægt er að draga saman kjarnann í heimspeki SGI í hugtakinu „mannúðarbylting.“ Þetta er sú hugmynd að sjálfsprottin löngun einstaklings til jákvæðra innri breytinga í lífi sínu muni hafa áhrif á hið stóra net lífsins og muni að lokum leiða til endurnýjunar mannlegs samfélags.