Fara í innihald

Skriftaboð Þorláks helga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skriftaboð Þorláks helga var leiðarvísir skriftaföður eftir Þorlák Þórhallsson sem var ætlaðar til að leiðbeina prestum hvernig menn skyldu bæta fyrir ýmsar þær syndir sem menn játuðu í skriftarstól. Þorlákur Þórhallsson tók vígslu sem Skálholtsbiskup árið 1178 og er talinn hafa skrifað skriftaboðin snemma í biskupsdómi sínum.

Almennur hluti[breyta | breyta frumkóða]

Skriftaboðin setja almennar reglur, einkum þessar: „Meira skal bjóða ávallt fyrir jafna synd auðgum en aumum, meira heilum en vanheilum, meira lærðum en ólærðum, meira meir vígðum en miður vígðum, meira sælum en vesælum, meira eldri en tvítugum en þeim er yngri eru.” Einnig er gert ráð fyrir meiri yfirbótum, ef brot eru framin á þeim tímum kirkjuársins, þegar sérstaklega á að hafa kristindóm hugfastan. Ástæða skiptir máli, hvort til dæmis er stolið fyrir illsku sakir eða vesældar. Einnig leiðrétting á broti, hvort þýfi er til dæmis skilað.

Sérstakur hluti[breyta | breyta frumkóða]

Mestur hluti skriftaboðanna er upptalning á einstökum brotum og yfirbótum fyrir þau. Skírlífisbrot eru fyrirferðarmest. Þyngstar yfirbætur varða það, að fólk hafi átt mök við samkynja fólk og búfé. Ef skyldmenni hafa lagst hvort með öðru, er í alllöngu máli gerður greinarmunur á, hve náin þau eru, en allt eru þetta álitin alvarleg brot. „Fyrir það skal minnst bjóða [þ.e. sekta], sem misgert er vakandi manni, ef hann saurgast af blíðlæti við konu. Þetta er minnst sök. Meira ef hann saurgast af höndum sínum sjálfs. Meira ef hann saurgast af tré boruðu. Mest af hann saurgast af annars karlmanns höndum“. Einnig er tekið á nokkrum annars konar brotum, til dæmis þetta: Spúi einhver á páskum eða þá er hann hefur nýlega tekið Corpus Domini, þótt eigi sé á páskum, þá skal bjóða að fasta sex dægur eina, ef af ofáti einu saman þykir vera og engri annarri vanheilsu.

Biskups úrskurður[breyta | breyta frumkóða]

Nokkur alvarlegustu brot skal prestur ekki útkljá í skriftum, heldur sjálfur biskupinn skriftir skepja: Ef maður misþyrmir móður sinni eða dóttur eða systur eða þeirri konu nokkurri, er nánari er en systrunga að frændsemi eða sé þvílík mein að sifjum, eða sé misþyrmt kirkju eða helgum stöðum, eða vekur maður kristnum mönnum heiftar blóð, eða misbýður nokkru mjög kennimönnum, eða bölvar maður föður sínum eða móður, eða móðir barni sínu, eða guðlastar maður, eða tekur maður nauðuga konu berlega, eða situr maður úti til fróðleiks, eða fremur maður galdra eða þá hluti nokkra, er magnaðir séu. Biskup áskildi sér einnig að fjalla um sum afglöp presta við messugerð.

Tegundir yfirbóta[breyta | breyta frumkóða]

Yfirbætur fólust meðal annars í föstuhaldi, allt að áratug fyrir mestu brotin, því að halda sig frá altarissakramentinu, einnig allt að nokkrum árum, bænahaldi (fara til dæmis 50 sinnum með Faðirvorið), knébeðjaföllum (svo að bæði komi niður hné og olnbogar, ef fólk er heilbrigt), veita fátækum og slá sig jafnvel með píski eða belti.

Heimildir, ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

  • Bogi Th. Melsteð: Íslendinga saga III, bls. 278-280, Kaupmannahöfn 1916-1930.
  • Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 237-244, Kaupmannahöfn 1857-1876. Skoðað 1. september 2010 (pdf 64 MB).
  • Magnús Stefánsson: „Kirkjuvald eflist”, Saga Íslands II, bls. 107, Reykjavík 1975.
  • Sveinbjörn Rafnsson: „Skriftaboð Þorláks biskups”, Gripla V, bls. 77-114, Reykjavík 1982.