Skarð í vör
Skarð í vör og skarð í góm eru tveir náskyldir fæðingargallar sem geta orðið þegar samruni á efri vör og/eða gómi fósturs verður fyrir truflun. Vörin myndast ásamt nefinu á fimmtu til sjöundu viku og getur truflunin orðið öðru megin eða báðum megin við miðnesisgrófina og skarðið ýmist eitt eða tvö. Oftast nær skarðið í gegnum tanngarðinn en stundum er það þó eingöngu í vörinni sjálfri.
Gómurinn myndast seinna, á sjöundu til tólftu viku. Þá vaxa hliðar hans saman og mynda skil milli munnhols og nefhols en ef vöxturinn truflast verður gat þar á milli, svokallað gómskarð. Ef einstaklingur er með bæði góm- og vararskarð sem ná saman kallast það alskarð.
Þetta er tiltölulega algengur fæðingargalli og er talið að eitt af hverjum 600-800 börnum fæðist með hann.
Nú á tímum er skarð í vör og góm lagfært með skurðaðgerðum og þarf í flestum tilvikum nokkrar aðgerðir. Fyrsta aðgerð er oft gerð fljótlega eftir fæðingu til að auðvelda barninu að nærast og síðan eru fleiri aðgerðir gerðar á næstu mánuðum eða árum. Aðgerðir af þessu tagi takast yfirleitt mjög vel og örin verða lítið áberandi. Einstaklingar með skarð í vör eða góm þurfa þó í mörgum tilvikum á umfangsmiklum tannréttingum að halda. Sýking í miðeyra er líka mjög algeng meðal barna sem þannig er ástatt um og getur valdið heyrnarleysi eða heyrnar- og talgöllum sem þarf að lagfæra.
Barn með klofna vör á oftast erfitt með að sjúga brjóst eða pela og þarf því að gefa því vökva með skeið eða stútkönnu. Barni með klofinn góm er mun hættara við sýkingum en ella. Þetta varð til þess að fyrr á öldum dóu flest börn með skarð í vör á fyrstu vikum eða mánuðum og þurfti oftast mikla natni til að halda lífi í þeim. Það tókst þó stundum og þótt flestir sem komust á legg og voru með skarð í vör yrðu að sætta sig við gallann var snemma farið að gera aðgerðir til að reyna að laga hann og í Bald's Leechbook, enskri lækningabók frá 9. öld, er greinargóð lýsing á því hvernig sauma eigi saman skarð í vör. Slík aðgerð var gerð á Þorgils skarða Böðvarssyni af lækni við norsku hirðina 1245 og er það fyrsta lýtaskurðaðgerð sem vitað er til að gerð hafi verið á Íslendingi.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Breið bros - Samtök aðstandenda barna með skarð í vör og góm Geymt 20 febrúar 2009 í Wayback Machine