Fara í innihald

Byggðasafnið í Skógum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skógasafn)

Byggðasafnið í Skógum var stofnað árið 1949 sem gerir það að einu elsta byggðasafni landsins. Safnkosturinn samanstendur af meira en 18 þúsund munum að mestu frá Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Skógasafn er að finna 150 kílómetra austan af Reykjavík og 30 kílómetra vestan af Vík. Safnið er sérstaklega þekkt fyrir Þórð Tómasson, sem var safnvörður meginpart ævi sinnar og ber ábyrgð á mestri söfnuninni.

Skógasafn skiptist í raun í þrjú söfn, byggðasafn, húsasafn og samgöngusafn. Byggðasafnið er elsti hlutinn og sýningarrýmið er á þremur hæðum og þar má finna sjósókn, landbúnað, náttúrugripasafn, vefnað, forn handrit og bækur, þar á meðal eintak af Guðbrandsbiblíu frá 1584, ásamt munum frá Víkingaöld.

Í húsasafninu má finna torfbæi frá lokum 19. aldar ásamt fleiri hýbýlum sem flutt hafa verið á safnasvæðið. Þar er Holt á Síðu sem var fyrsta timburhús Vestur-Skaftafellssýslu og er að mestu byggt úr rekavið og við úr skipsreka franska spítalaskipsins Sankti Páli. Einnig má finna fjósbaðstofuna Skál á Síðu sem var búið í með þessu gamla lagi til 1970 og Skógakirkju sem vígð var árið 1998.

Samgöngusafnið var opnað árið 2002 og sýnir sögu samgangna og tækniþróunar á Íslandi frá lokum 19. aldar og allt til dagsins í dag. Á meðal safngripa má finna Citroën Kégresse snjóbíl frá 1930 sem er heillegast eintak sinnar tegundar í heiminum, “Skaftið” hans Ómars Ragnarssonar sem hann flaug um á ótrúlegustu staði og Willis Jeppa þáverandi Þjóðminjavarðar og síðar forseta Íslands sem hann notaði í ferðum sínum um landið til að bjarga fornminjum.