Fara í innihald

Sjálfstal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sjálfstal er námskenning sem vísar til þess þegar barn talar upphátt við sjálft sig. Markmiðið með sjálfstali er að veita aðhald við að leysa verkefni, einbeita sér, hvetja sig áfram og hafa yfirsýn. Sjálfstalið er ekki ætlað öðrum en barninu sjálfu. Við athugun börnum á aldrinum tveggja til sjö ára hafa fræðimenn séð jákvæða fylgni á milli notkunar barna á sjálfstali og árangri þeirra við að leysa verkefni af ýmsum toga.

Sjálfstal var fyrst rannsakað af Vygotsky (1934-1986) og Piaget (1959) en hefur ekki verið í sviðsljósinu fyrr en síðastliðna þrjá áratugi. Börn nota orðaforða frá einstaklingum sem þau umgangast í sínu nánasta umhverfi, og málið verður eins konar sjálfstjórnartæki. Því er mikilvægt að læra tungumál og hugtök því málið verður hugsun okkar og hefur áhrif á vitsmunaþroska, sbr. hugarskilningskenninguna (e. theory of mind).

Sjálfstal barna er talið koma fram vegna þess að þau hafa ekki náð þeim þroska að tala við sjálf sig án hljóða og því mætti túlka sjálfstalið sem nokkurs konar herminám. Sjálfstal minnkar eða hverfur að mestu á aldrinum 7–9 ára. Þess í stað kemur fyrirbæri sem nefnt hefur verið innra tal (e. inner speech). Sumar rannsóknir benda þó til þess að margir haldi sjálfstali áfram að einhverju marki alla ævi, til dæmis þegar þeir þurfa að leysa krefjandi verkefni.