Fara í innihald

Silfursmiður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Silfursmiður er handverksmaður sem býr hluti til úr silfri eða gulli. Svipuð verkfæri og handverk er notað í silfursmíði og gullsmíði og voru gildi oftast þau sömu.

Íslensk silfursmíði

[breyta | breyta frumkóða]

Silfursmiðir smíðuðu stokkabelti með loftverki en loftverk er þannig að silfurþynnur voru skornar eða klipptar út og síðan beygðar í blóm og greinar. Sumar ræmur í loftverki voru drifnar en drifsmíð er forn aðferð sem fólst í að skraut var teiknað á málm og síðan slegið í frá bakhlið og upphleypt mynstur svo fínunnið á framhlið og aðrar skreytingar slegnar eða grafnar í silfrið. Loftverk var svo fest í umgerð (kveikt). Loftverk tíðkaðist á 15. og 16. öld. Stokkabelti eru kölluð sprotabelti ef þau eru með sprota sem hangir niður úr keðjunni.

Samkvæmt fornum kirkjulegum ákvæðum áttu helg ker í kirkjum að vera gerð út eðalmálmi og hafa varðveist nokkrir kaleikar frá miðöldum. Silfurmunir voru líka steyptir í mótum og voru steyptir beltisstokkar, beltispör, hnappar, millur, eyru á staup og fleira. Silfurgripir voru steyptir í svonefndum flöskum en það voru tveir opnir kassar sem voru fylltir með fíngerðum bleyttum sandi. Steypumóti var þrýst í sandinn og kassarnir lagðir saman og svo losaðir sundur og þá var holrúm í sandinum í þeirri mynd sem átti að steypa eftir og var bráðnu silfri hellt í holrýmið. Síðan var afsteypan unnin í höndum, sorfnar af brúnor og ójöfnur og mynstur skýrt. Mót af stærri hlutum voru oft grafin í stein eða leir og var þá bráðnum málmi hellt beint í mót.

Algengt var á 19. öld að gera minningarskildi úr silfri þar sem grafnar voru í skreytingar og texti. Verkfærið sem grafið var með á skildina var nefnt alur eða grafalur og var líkt smágerðu útskurðarjárni. Í fyrstu tíðkaðist að nota settletur á silfurgripi en þá eru stafirnir lausir hver frá öðrum. Síðar voru leturgerðir með tengiskrift grafnar út.

Víravirki er forn smíðisaðferð sem var þekkt á miðlöldum. Eldri gerð íslensks víravirkis er kallað "gamla kornsetta víravirkið" og er það snúrulagt og unnið þannig að tveir grannir silfurþræðir eru snúnir saman og úr snúru mótaðir litlir hringir og svo litlar silfurkúlur (korn) kveiktar á samskeytum hringja. Yngra víravirkið er þannig að mjög þunnur flatur vír var felldur í grindur úr sverari vír sem mótaði útlínur mynstursins. Smíði íslenskt víravirkis var mest um og eftir 1860 með vakningu sem þá var kringum íslenska þjóðbúninga en Sigurður málari teiknaði mynstur á samfellur og treyjur og búningaskart eins og belti og spangir.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.