Selena

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Selena er mánagyðja í grískri goðafræði; hún er systir Helíosar. Listamenn hugsa sér hana sem konu með kyndil.

Á kvöldin ekur hún upp úr Ókeansstraumi á vagni, sem tveimur hvítum fákum er beitt fyrir. Rennur hún síðan skeið sitt um himinbogann. Hún er blíð og ófröm. Á laun á hún ástfarir við fagra yngissveina, sem hún kyssir í svefni. Einkum kveða skáldin unaðslega um ástir hennar og Endymíons, konungssonar frá Elis. Að bæn Selenu leyfir Seifur sveininum að ákveða hlutskipti sitt. Kýs hann ævarandi svefn í æsku og fegurð. Hvílir hann síðan sofandi í helli á Latmosfjalli í Karíu. Þangað læðist Selena stundum til þess að láta hrífast af fegurð hins sofandi sveins.

Í átrúnaðinum kvað aldrei neitt að Selenu með Grikkjum. Skáldin segja, að hún sé hvítörmuð og fagurlokkuð gyðja með skínandi ennishlað á höfði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jón Gíslason, Goðafræði Grikkja og Rómverja