Sauðafellsför

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sauðafellsför í janúar 1229 var eitt af níðingsverkum Sturlungaaldar. Sturla Sighvatsson hafði liðsinnt sonum Hrafns Sveinbjarnarsonar þegar þeir fóru að Þorvaldi Vatnsfirðingi og brenndu hann inni á Gillastöðum í Króksfirði 1228. Þórður og Snorri, synir Þorvaldar með frillu hans Helgu Ormsdóttur, voru ungir og Snorri raunar aðeins 14 ára en Þórður nokkrum árum eldri. Þeir vildu hefna sín á Sturlu og er gefið í skyn að Snorri Sturluson hafi hvatt þá til þess. Veturinn eftir brennuna fóru þeir að næturlagi að Sauðafelli í Dölum, þar sem Sturla bjó þá, en hann var ekki heima. Þeir rændu bæinn, unnu mikil spjöll, hjuggu allt sem fyrir var og inn í hvert rúm í skálanum, drápu nokkra heimilismenn og særðu aðra illa. Þeir ógnuðu Solveigu Sæmundardóttur, konu Sturlu, sem lá á sæng, en meiddu hvorki hana né börn hennar og Þórður sagði að tvennt þætti sér verst, að Sturla var ekki heima og að hann gat ekki tekið hana á brott með sér. Síðan héldu þeir á brott.

Sturla hefndi Sauðafellsfarar þegar hann lét drepa Þorvaldssyni báða 8. mars 1232. Þar með má segja að veldi Vatnsfirðinga hafi lokið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ármann Jakobsson. 1994. „Sannyrði sverða: Vígaferli í Íslendinga sögu og hugmyndafræði sögunnar“, Skáldskaparmál 3, 42–78.
  • Ármann Jakobsson. 2003. „Snorri and His Death: Youth, Violence, and Autobiography in Medieval Iceland“, Scandinavian Studies 75, 317–40.
  • Guðrún Nordal, 1998. Ethics and Action in Thirteenth-Century Iceland, Viking Collection 11 (Odense: Odense University Press), 89–99.
  • Jonathan Grove. 2008. „Skaldic verse-making in thirteenth-century Iceland: the case of the Sauðafellsferðarvísur“,Skaldic verse-making in thirteenth-century Iceland: the case of the Saudafellsferdarvisur Viking and Medieval Scandinavia 4, 85-131.
  • Torfi Tulinius. 2004, Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga, Íslensk menning 3 (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag), 180–94.