Sæla (smásaga)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

„Sæla“ eða „Bliss“ er smásaga eftir nýsjálenska rithöfundinn Katherine Mansfield. Sagan kom fyrst út í ágúst 1918 í tímaritinu The English Review og fjallar um unga konu að nafni Bertha Young. Söguþráðurinn gefur til kynna að Bertha er vel stæð, hún er þrítug að aldri og á eina stúlku sem nefnist B litla með eiginmanni sínum Harry. Á heimili Berthu í byrjun sögu er þjónustustúlkan Mary og síðan fóstran sem sér um barnið og því er komið vel til skila frá fyrstu síðum sögunnar að það er alls ekki í verkahring móðurinnar Berthu að ala upp B litlu. Eftir því sem líður á söguna fjölgar fólkinu í húsi Berthu og Harry þar sem þau eru að halda matarboð. Í matarboðið koma vinahjónin ungfrú og herra Norman Knight og síðan maður að nafni Eddie Warren ásamt nýjum kunningja þeirra hjóna Pearl Fulton. Matarboðið fer vel fram og þau eru öll hinir bestu mátar. Hins vegar finnst Berthu eiginmaður sinn vera ansi kaldur í garð Pearl sem kemur Berthu á óvart þar sem hún dregst að henni einhverra hluta vegna. Í lok sögu sem er engu að síður lokin á sjálfu matarboðinu fær lesandinn útskýringu á því hvers vegna Pearl hefur þessi áhrif á hjónin.

           Nafn smásögunnar tónar vel við þá tilfinningu sem textinn litast af. Bertha Young er haldin þessari sælutilfinningu frá fyrstu setningu sögunnar. Karakterinn Bertha virkar á ákveðinn hátt barnaleg þar sem hún er svo sæl og glöð gagnvart öllu því sem hendir hana en á meðan sér lesandinn veröld Berthu sem alls ekkert svo heillandi stað. Fyrir það fyrsta má Bertha liggur við ekki koma nálægt uppeldinu á barni sínu og Harry virkar sem afar kaldur og fjarlægur eiginmaður en samt sér Bertha aðeins þann unað sem hún telur að lífið hafi fram á að færa. Bertha hrífst af Pearl Fulton og þess vegna stuðar það Berthu hvað maðurinn hennar Harry hefur lítið álit á Pearl og kemst næst því að vera dónalegur við hana. Bertha finnur fyrir einhverri ókunnugri tilfinningu á meðan matarboðinu stendur gagnvart Pearl sem hún áttar sig ekki alveg á. Það er eitthvað sem dregur hana að Pearl, einhver gagnkvæm tilfinning.

           Í lok sögunnar rennur það upp fyrir lesandanum hvað dró þessar tvær konur saman. Pearl og Bertha deildu sömu sælutilfinningunni. Í lok matarboðsins fylgir Harry dömunni Pearl til dyra og kemur þá í ljós að Pearl er hjákona Harry. Bertha tekur eftir þessu og þar með hrynur veröld hennar, það kemur sprunga í þá sæluskipan sem Bertha var búin að byggja í kringum sig. Perutréð í garði Berthu er ákveðið minni sem kemur upp endurtekið í sögunni. Perutréð er eitthvað sem Bertha dáir líkt og allt annað í kringum sig en þegar hún áttar sig á framhjáhaldi Harry kemur Pearl til þess að kveðja hana og hrósar henni í leiðinni fyrir yndislega perutréð hennar. Meginhugsun sögunnar er því sú ádeila hvort það sé betra að vera hamingjusamur og fávís eða vitur og óhamingjusamur fyrir vikið (Mansfield, 1918).

Smásagan er til í íslenskri þýðingu Önnu Maríu Þórisdóttur.

Heimildir

During, Simon. (2015). Katherine Mansfield´s World. Journal of New Zealand Literature, 33(1), 33-66.

Mansfield, Katherine. (08.1918). Bliss. The English Review, 108-119.