Reiðtygi
Reiðtygi er þau áhöld sem notuð eru til útreiða t.d. til að auðvelda knapanum ásetu á hestinum og til að stjórna honum. Helstu reiðtygi eru hnakkur, beisli og múlar af ýmsu tagi.
Orðalisti
[breyta | breyta frumkóða]Beisli kallast einu orði höfuðleður, mél og taumur. Beislið er notað til að gefa hestinum ábendingar um hvað hann eigi að gera, s.s. stöðva, hægja á sér eða beygja. Einnig er það notað til að teyma hross, hvort sem knapinn er á baki eða gengur meðfram hestinum.
Hnakkur (eða söðull) er lagður á bak hestsins til þæginda fyrir knapann og til að auðvelda honum að halda jafnvægi á hestinum. Hnakkar eru ólíkir að lögun eftir því hvers konar útreiðar eru stundaðar. Notaðir eru hnakkar með djúpt sæti og góðan stuðning í fimireið, flatari og þynnri hnakkar í hindrunarstökki. Til reiðar á íslenska hestinum kjósa flestir örlítið flatan, en mjúkan hnakk sem gerir knapanum auðveldara að færa þyngd sína til eftir gangtegundum. Hnakkurinn er festur á hestinn með gjörð, auk þess sem sumir velja að nota reiða, svo hnakkurinn renni ekki fram, eða brjóstreim, til að hnakkurinn rennir ekki aftur.
Múll, hvort sem er reiðmúll eða stallmúll, er höfuðbúnaður hests og er notaður til að hafa stjórn á honum. Stallmúllinn dregur nafn sitt af því að hross eru oft látin vera með hann við stall í hesthúsum.
Reiðmúlar eru margskonar og hafa ólík notagildi. Enskur múll er múll sem liggur þvert yfir nefbeinið, og leggst undir kinnbeinið. Hann getur haft skáreim sem kemur framfyrir mélhringina. Þýskur múll, Hannover-múl eða Rosemarie-múll, kom til Íslands fyrir tilstilli Rosemarie Þorleifsdóttur á 9. áratug seinustu aldar en hafði áður mikið verið notaður í Þýskalandi. Þýski múllinn er beinn, kemur yfir nefbein hestsins nokkuð neðarlega, en þó ekki svo neðarlega að hann loki öndunarvegi hestsins. Mexíkóskur krossmúll er nokkuð líkur enskum múl með skáreim, nema nefreimin nær svolítið neðar.
Mél er aflangt stykki sem leggst í munn hestsins til að auðvelda knapanum að gagra honum til eftir vilja sínum. Algengast er að mél séu úr málmi, en einnig eru til gúmmímél, eða mél samsett úr ólíkum efnum, s.s. ólíkum málmum eða málmi og gúmmíi. Ólíkar útfærslur eru líka að mélhringjunum eða -kjálkunum. Sumar méltegundir hafa hringi, hvort sem þeir eru lausir eða fastir, og aðrar kjálka og kallast mélin þá einu nafni stangir (eða stangamél). Stangir breyta átakinu á munn hestsins og virka sem vogarstöng þar sem hluti af aflinu fer upp eftir höfuðleðrinu og hluti af aflinu verkar á keðju sem liggur undir höku hestsins og tengir mélhringina. Stangamél eru því nokkuð vandmeðfarnari en venjuleg hringamél.
Ólíkar útfærslur á munnstykki mélanna eru notaðar við ólíka hesta. Flest mél eru skipt, þ.e. hafa að minnsta kosti ein liðamót í miðju munnstykkinu, sum eru tvískipt. Tvískipt mél hafa þann kost fram yfir einskipt mél að þau brotna betur yfir tungu hestsins. Sum mél eru ekki slétt í munninum og sum hafa beygju (oft kölluð beygjumél eða baslmél) og eru þannig gjörð til að gera hestinum erfiðara fyrir að koma tungunni yfir mélið og „basla“. Önnur mél hafa litla grind sem þjónar sama hlutverki eða rúllur til að fá hestinn til að japla mélin og leika við þau.