Pompei norðursins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Pompei Norðursins eða Eldheimar er gosminjasafn í Vestmannaeyjum sem var opnað formlega 23. maí 2014

Þann 23. janúar 1973 hófst eldgos á Heimaey og telst það án efa til stærstu náttúruhamfara Íslandssögunnar. Heimaey er eina byggða eyjan í Vestmannaeyjaklasanum og bjuggu þar rúmlega 5200 manns þegar gosið hófst. Eldgosið stóð yfir í rúmlega 5 mánuði en 3. júlí sama ár var því lýst yfir að gosinu væri lokið og fólk flutti aftur til Vestmannaeyja.

Landslag Vestmannaeyja breyttist við eldgosið og hluti byggðarinnar fór undir hraun. Þegar eldgosinu lauk flykktust ferðamenn og vísindamenn allsstaðar að úr heiminum til að sjá með eigin augum þær hrikalegu náttúruhamfarir sem höfðu átt sér stað.

Liðin eru meira en 40 ár frá eldgosinu. Minningin og ummerki eldgossins, sem vann á eigum Eyjabúa, eru smám saman að mást út. Hraun og aska grófu undir sig um fjögur hundruð hús og byggingar.

Verkefnið "Pompei Norðursins" er einstakt í nútíma fornleifauppgreftri, sem á sér fáar, ef einhverjar hliðstæður. Gosminjasafn var reist við rætur Eldfells sem opnaði síðan formlega 23. maí 2014. Safnið heitir Eldheimar og er hluti af þriggja heima sýn Vestmannaeyja í ferðaþjónustu. Safnið er um Heimaeyjargosið 1973 og einnig er þar hýst sýning um jarðsögu eyjanna en Surtseyjarstofa flutti starfsemi sína þangað. Í Eldheimum er einnig einbýlishúsið að Gerðisbraut 10 sem fór á kaf í ösku og vikur. Eftir 40 ár undir vikri er húsið mikið sprungið. Húsið hefur verið styrkt að innan en ekki er talið öruggt að sýningargestir gangi um það. Einstaka innastokksmunir eru heillegir sem eru hljóðir minnisvarðar um skyndilegan flótta fjölskyldunnar gosnóttina 23. janúar 1973.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]