Fara í innihald

Hreintrúarstefna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Púritanar)
Nokkrir helstu guðfræðingar hreintrúarstefnunnar á 17. öld: Thomas Gouge, William Bridge, Thomas Manton, John Flavel, Richard Sibbes, Stephen Charnock, William Bates, John Owen, John Howe og Richard Baxter.

Hreintrúarstefna eða púritanismi er heiti sem er notað um enska kalvinista frá ensku siðbótinni á 16. öld. Þeir lögðu áherslu á aukinn „hreinleika“ átrúnaðar og kenninga kirkjunnar sem og einfaldleika og látleysi í lofgjörð. Fyrst um sinn var þetta hreyfing innan ensku biskupakirkjunnar sem vildi gera kirkjuna að öldungakirkju og fjarlægja atriði sem voru álitin pápísk úr almennu bænabókinni frá 1559. Púritanar voru strangari en aðrir kalvínistar innan ensku kirkjunnar, aðhylltust sjálfstjórn kirkjusókna, löghyggju og lögðu áherslu á guðrækilegt líferni. Fæstir þeirra vildu þó aðskilnað frá ensku kirkjunni þar til Jakob 1. Englandskonungur hóf að berjast gegn hreintrúarmönnum í Englandi og William Laud, erkibiskup af Kantaraborg, fór að knýja á um notkun almennu bænabókarinnar og bannaði boðun fyrirhyggju. Þetta leiddi til þess að margir hreintrúarmenn flúðu til Nýja heimsins þar sem þeir stofnuðu Massachusettsflóanýlenduna. Þegar Enska borgarastyrjöldin hófst sneru margir þeirra til baka og gengu í þingherinn.

Þegar enska þingið kallaði saman kirkjuþingið í Westminster 1643 náðist ekki samkomulag um stjórn kirkjunnar, hvort hún ætti að vera öldungakirkja, biskupakirkja, sóknarkirkja eða samkvæmt hugmyndum Erastusar um stjórn ríkisins á kirkjunni. Niðurstaðan var að kirkjan skyldi vera öldungakirkja, en Oliver Cromwell skyldaði kirkjuna ekki til að taka upp nýja skipan.

Með Stúart-endurreisninni 1660 var skipan kirkjunnar færð aftur til þess horfs sem hún var í fyrir 1643 og hreintrúarmenn hraktir úr ensku biskupakirkjunni. Eftir það var farið að kalla þá utankirkjumenn.