Fara í innihald

Orrustan við Trafalgar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýsing á orrustunni við Trafalgar eftir Auguste Mayer frá árinu 1836.

Orrustan við Trafalgar (21. október 1805) var sjóorrusta sem konunglegi breski sjóherinn háði á móti flotum Frakka og Spánverja í þriðja bandalagsstríði Napóleonsstyrjaldanna (1796–1815).[1]

Tuttugu og sjö bresk herskip undir stjórn Horatio Nelsons flotaforingja sigruðu þrjátíu og þrjú frönsk og spænsk skip undir stjórn franska flotaforingjans Pierre-Charles Villeneuve við suðvesturströnd Spánar, vestan við Trafalgar-höfða. Frönsku og spænsku flotarnir misstu tuttugu og tvö skip en Bretar engin. Þetta var mesti sigur sem unninn var í sjóorrustu í öllu stríðinu.

Sigur Breta sannaði yfirburði flotans sem þeir höfðu byggt upp á átjándu öld og var að hluta til unninn með nýungagirni Nelsons og vilja hans til að víkja frá hefðbundnum herbrögðum.[2] Venja var fyrir því að sigla flota á móti óvinaskipun í beinni línu til þess að hægt væri að koma skilaboðum milli skipa og hafa sem flest skip í skotfæri. Nelson skipti flota sínum þess í stað í tvær raðir, beindi þeim oddlaga á móti óvinaflotanum og vann þannig sinn mesta stórsigur.

Á meðan orrustan geisaði skaut frönsk skytta Nelson. Nelson lést stuttu síðar úr sárum sínum og varð ein frægasta stríðshetja Breta fyrir vikið. Villeneuve var handsamaður ásamt skipi sínu, Bucentaure, en spænski flotaforinginn Federico Gravina slapp með það sem eftir var af spænska flotanum og lést nokkrum mánuðum síðar úr sárum sem hann hlaut í bardaganum. Villeneuve var viðstaddur útför Nelsons sem stríðsfangi í Bretlandi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Napoleonic Wars“. Westpoint.edu. U.S. Army. Afrit af upprunalegu geymt þann 28 júlí 2014. Sótt 1. júlí 2017.
  2. Bennet, Geoffrey (2004). The Battle of Trafalgar. England: Pen & Sword Books Limited, CPI UK, South Yorkshire.