Oddur Hjaltalín
Oddur Hjaltalín (12. júlí 1782 – 25. maí 1840) var landlæknir, fræðimaður og skáld. Oddur kemur fyrir sem persóna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Oddur var sonur Jóns Hjaltalíns, prests og skálds á Kálfafelli. Hann þjónaði síðast á Breiðabólstað á Skógarströnd, sonar Odds Hjaltalín, lögréttumanns á Rauðará við Reykjavík, sonar Jóns Hjaltalíns sýslumanns og ættföður Hjaltalínsættarinnar, síðasta ábúandans á landnámsbýlinu Vík (þ.e. Reykjavík). Móðir Odds landlæknis var Guðrún Jónsdóttir frá Bjarnanesi í Austur Skaftafellssýslu. Hún var fyrri eiginkona Jóns. Hálfbróðir Odds, samfeðra, var Jón Hjaltalín, landlæknir og forstöðumaður Læknaskólans
Oddur lauk stúdentsprófi við Hólavallaskóla í Reykjavík 1802, lærði læknisfræði hjá Jóni Sveinssyni landlækni í eitt ár. Síðan stundaði Oddur nám við Hið konunglega kírúrgíska akademí í Kaupmannahöfn og lauk þaðan reynsluprófi 1807. Hann var skipaður læknir í suðurhéraði Vesturamtsins 1807 en komst ekki til Íslands vegna Napóleonsstyrjaldanna. Þess í stað var hann herlæknir á Jótlandi og aðstoðarlæknir á Norður-Jótlandi og við nokkur hersjúkrahús. Hann var settur landlæknir 1816-1820 og 1829-31 en lengst af var hann læknir í Vesturamti, búsettur í Bjarnarhöfn. Páll Eggert gefur Oddi Hjaltalín þau eftirmæli, að hann hafi verið vel gefinn maður, stórbrotinn og drykkfelldur, hagmæltur nokkuð. Um hann orti Bjarni Thorarensen fræg eftirmæli.
Rit
[breyta | breyta frumkóða]- Hjálparmeðöl til að koma drukknuðum til lífs (1817)
- Íslensk grasafræði (1830)
- Nýtt lesrím (1817)
- Reglur fyrir kúabólusetjara (1817)
- Ritgjörð um birkiskóga viðurhald (1827)
- Stutt ávísan fyrir aðra en lækna um endurlífgun dauðfæddra barna (1820)
- Um Birkiskóga vidurhald, sáningu og plöntun á Íslandi (1848)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]