Nýrnahettur
Nýrnahettur eru innkirtlar og hluti af innkirtlakerfi mannsins. Þær seyta afurðum sínum sem eru hormón út í millifrumuvökva og þaðan fara hormóninn inn í blóðrásina.[1] Hormónin berast með blóðrásinni um allan líkamann og hafa áhrif á frumur.
Nýrnahetturnar eru tvær, þríhyrningslaga og eru staðsettar ofan við sitt hvort nýrað.[2] Þær eru myndaðar úr tveim megin hlutum, berki og mergur. Börkurinn er að utanverðu og umlykur merginn sem er að innan.[2] Stærsti hluti nýrnahettanna tilheyra berkinum eða um 85 prósent af kirtlinum.[3]
Börkurinn skiptist í þrjú svæði sem hvert myndar mismunandi hormón.[3] Ysta lag barkarins hefur áhrif á jafnvægi salta í líkamanum með myndun saltstera.[3] Þar má helst nefna saltsterann aldósteról sem er í meginhlutverki við að stýra saltjafnvægi í líkamanum.[4] Aldósteról hefur til að mynda áhrif á nýrun með því að örva ákveðnar frumur til að endursoga natríumjónir úr þvagi og skila aftur út í blóðið.[3] Um leið örvar hormónið þveiti kalíums, sem leiðir til losunar þess úr blóði í þvag.[3] Þetta er afar mikilvægt þar sem að of mikið magn af kalíumi getur leitt til alvarlegra og lífshættulegra hjartsláttartruflana.[4] Auk þess að stýra saltjafnvægi í líkamanum hefur aldósterón áhrif á blóðþrýsting. Ef blóðþrýstingur lækkar setja nýrun af stað ferli sem örvar nýrnahettur til að seyta meira af aldósteróni.[3] Þegar aldósterón endursogar natríumjónir hækkar natríummagn í líkamanum sem eykur geta hans til að halda í vatn sem hækkar blóðþrýsting.[3]
Miðlag barkarins framleiðir sykurstera. Þar er kortisól áhrifamest.[3] Sykursterar hafa margskonar áhrif. Þeir sjá t.d. um niðurbrot próteina og fitu.[3] ATP er einnig framleitt með hjálp sykurstera. Líkaminn notar amínósýrurnar sem losna við niðurbrot próteina bæði til að mynda ný prótein eða til framleiðslu á ATP. Fitusýrur sem losna við niðurbrot fitu eru þá einnig notaðar til að mynda ATP.[3] Sykursterar örva einnig lifrafrumur til að mynda glúkósa sem aðrar frumur geta notað til ATP framleiðslu.[3]
Auk þess að hafa áhrif á framleiðslu ATP í líkamanum hafa sykursterar bólgueyðandi áhrif. Þeir hamla áhrifum hvítra blóðkorna sem taka þátt í bólgusvörun.[3] Einnig er hægt að nýta sykurstera til meðferðar á bólgusjúkdómum eins og gigt. Þessi bólguhömlun er þó ekki gallalaus þar sem að þetta veldur einnig því að sár eru lengur að gróa.[3] Stórir skammtar af sykursterum bæla einnig ónæmiskerfið sem getur valdið því að hæfni líkamans til að verjast sjúkdómum minnki. Þetta er nýtt til lækninga þar sem stórir skammtar af sykursterum eru notaðir vegna líffæraígræðslu til að minnka líkur á að ónæmiskerfið hafni líffærinu.[3]
Stjórnun á seytingu kortistóls og annara sykurstera á sér stað með neikvæðri endurgjöf þar sem að lágt hlutfall kortisóls í blóði örvar taugafrumur í undirstúku til að framleiða CRH (corticotropin-releasing hormone).[3] Þetta hormón örvar svo fremri heiladingul til að seyta stýrihormóni nýrnahettubarkar sem örvar nýrnahettur til að seyta kortisóli.[3] Þegar hlutfall kortisóls hækkar aftur hefur það neikvætt hamlandi svörun á bæði fremri heiladingul og undirstúku sem verður til þess að þau draga úr losun stýrihormónanna.
Innsta lag nýrnahetturbarkarins seytir kynhormónum (andrógenum) í litlu magni.[3] Eftir kynþroska hjá körlum er andrógenum seytt í mun meira magni úr eistum svo áhrifin vegna seytingu hormónsins í nýrnahettum eru hverfandi.[3] Hins vegar eru áhrif andrógena mikilvæg í konum. Hormónin auka kynkvöt kvenna auk þess að vera breytt í kynhormónið estrógen.[3] Eftir tíðarhvörf þegar seyting á estrógeni hættir í eggjastokkum kemur allt estrógen frá umbreyttum andrógenum úr nýrnahettuberki.[3] Andrógen hafa einnig áhrif á hárvöxt undir höndum og á kynfærum hjá konum. Auk þess eiga þau þátt í vaxtarkipp einstaklinga fyrir kynþroskaskeiðið.[3]
Nýrnahettumergurinn er gerður úr svokölluðum eftirhnoðafrumum en þær frumur tilheyra sjálfvirka taugakerfinu.[3] Tvö helstu hormónin sem mergurinn seytir eru epínefrín og norepínefrín en kallast einnig adrenalín og noradrenalín. Aðstæður sem valda streitu eða við áreynslu verða til þess að undirstúkan sendir taugaboð sem að örva frumur í nýrnahettum til að seyta adrenalíni og noradrenalíni.[3] Þessi hormón auka mjög baráttu og flótta viðbragð (fight-or-flight response).[3] Áhrifin eru til að mynda að hjartsláttartíðni eykst, æðaþrenging svo að blóðþrýstingur hækkar, öndunarvegur til lungna víkkar, öndunartíðni eykst og blóðflæði eykst til hjarta, lifur, beinagrindavöðva og fituvefjar.[3] Tilgangurinn með þessu er að undirbúa einstaklinginn undir álag eða streitu.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- 1. Þuríður Þorbjarnardóttir. (27.01.03). Hvað er innkirtlakerfi? Sótt af: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3063
- 2. Your Adrenal Glands. Edocrineweb. (04.18.16). Sótt af: https://www.endocrineweb.com/endocrinology/your-adrenal-glands
- 3. Tortora, G. J og Derrickson, B. (2015). Introduction to The Human Body: TheEssentials of Anatomy and Physiology. 111 RiverStreet, Hoboken, NJ: John Wiley & Sons, Inc.
- 4. Arndís Auður Sigmarsdóttir. (2010). Sjúkratilfelli - lífshættulegtar truflanir á blóðsöltum hjá átta vikna dreng. Læknablaðið, 96(5). Doi: 10.17992/lbl.2010.05.294