Fara í innihald

Notandi:TommyBee/Álagskenning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þessi grein er enn í drögum, hér geturðu unnið áfram í greininni. Eftir að hafa vistað breytingar geturðu ýtt hér til að flytja greinina á réttan titil. Þú getur beðið um hjálp með hvað sem er á spjallsíðu greinarinnar.

Álagskenningar og siðrofskenningar eru undirkenningar verkhyggjusjónarhornsins. Samkvæmt því sjónarhorni hefur fjölskyldan, menntakerfið og hinar ýmsu stofnanir samfélagsins mörg verkefni sem úr þarf að leysa og innan þessara stofnana ríkja ákveðnar reglur og viðmið sem fólk þarf að fara eftir.
Rekja má verkhyggjusjónarhornið til Emilé Durkheim sem taldi að siðrof væri til komið vegna veikingar tengsla einstaklings við samfélagið. Þegar þessi tengsl veikjast er hætt við að einstaklingur einangrist sem gerir hann sjálfhverfan en þá eykst hættan á siðrofi. Að mati Durkheim eykst hættan á siðrofi með aukinni markaðsvæðingu og hröðum þjóðfélagsbreytingum. Kenning Emilé Durkheim um siðrof myndar grunninn að kenningu Robert Mertons um tengsl álags við afbrotahegðun.

Saga álagskenninga

Emile Durkheim

Upphaf álagskenninga í afbrotafræði má rekja til kenninga Emilé Durkheim og Robert Merton um siðrof. Merton var þeirrar skoðunar að í samfélögum þar sem mikil einstaklingshyggja ríkir og mikil áhersla er lögð á efnahagslega velgengni einstaklinga, er aukin hætta á siðrofi þar sem fólk á jaðri samfélagins sem ekki hefur sömu tækifæri og þeir efnameiri, leiðist út í afbrot til þess að ná að uppfylla efnahagslegslegar þarfir sínar. Aðrir fræðimenn hafa síðar komið fram á sjónarsviðið með nýjar útfærslur á siðrofskenningum og er álagskenning Robert Agnew ein þeirra.

Samkvæmt álagskenningunni getur neikvæð lífsreynsla og neikvæð sambönd einstaklinga við aðra leitt til álags sem síðan getur leitt til afbrotahegðunar. Agnew tilgreindi þrjá þætti sem geta útskýrt það hvers vegna sumir leiðist út í afbrot vegna álags og talaði um áhrif svokallaðra Inner- og Outer negative coping, þ.e. hvernig fólk bregst við álagi.
Ýmsar erlendar rannsóknir hafa skoðað tengsl álags við afbrotahegðun ungs fólks, en færri hafa sérstaklega skoðað tengsl álags við fíkniefnaneyslu. Hér á eftir verður meðal annars skoðuð rannsókn Jang og Johnson, en þeir könnuðu hvort álag sem framkallar neikvæðar tilfinningar eins og þunglyndi og kvíða, geti haft áhrif á neyslu ungmenna á fíkniefnum. Einnig verða niðurstöður innlendra rannsókna á fíkniefnaneyslu ungmenna skoðaðar.
Undanfarin ár hefur orðið vart við aukna fíkniefnaneyslu ungs fólks hér á landi og munar þá mestu um neyslu á hörðum efnum líkt og amfetamíni. Þessi mikla aukning hefur orðið til þess að fíkniefnabrotum hefur fjölgað verulega á milli ára og hafa rannsóknir ýmissa fræðimanna reynt að útskýra hvers vegna þetta á sér stað.

Siðrofskenning Mertons

Árið 1938 kom Robert Merton fram með nýja kenningu sem síðar var nefnd siðrofskenningin. Hann taldi að frávik og glæpir væru afurð bandarísks samfélags sem lagði mikla áherslu á hinn „ameríska draum”. Í því felst að samfélagið leggur ríka áherslu á jafnrétti allra til að ná árangri, auk þess sem það hvetur fólk til að hafa háleit markmið og vilja til að ná efnahagslegri velgengni. Merton hélt því fram að í samfélögum þar sem mikil áhersla er lögð á efnahagslega velgengni og þar sem mikil einstaklingshyggja ríkir er mjög líklegt að fólk á jaðri samfélagins, sem hefur ekki sömu tækifæri til að ná að uppfylla þessar þarfir með löglegum hætti, leiðist út í afbrot. Einungis lítill hluti fólks nær raunverulega efnahagslegri velgengni, því fólk hefur misjöfn tækifæri í lífinu. Fólk í lágstétt á ekki eins auðvelt með að ná efnahagslegri velgengni og þeir sem eru í efri stéttum.
Merton einblíndi á álagið sem myndast við það að fólk nær ekki markmiðum sínum. Þetta álag leiðir síðan til þess að fólk leitar leiða til að ná markmiðum sínum með ólöglegum hætti. Mikill óstöðugleiki í samfélaginu eykur líkur á siðrofi.
Margir fræðimenn hafa gagnrýnt kenningu Mertons, meðal annars fyrir að geta ekki nógu vel útskýrt afbrotahegðun unglinga, en margir unglingar virðast leiðast út í slíka hegðun af öðrum ástæðum en að samfélagið setji kröfur á þau um að ná efnahagslegri velgengni.
Þessir fræðimenn hafa margir hverjir komið fram með sínar eigin útgáfur af kenningu Mertons þannig að hún geti betur útskýrt afbrotahegðun unglinga. Einn þeirra er Robert Agnew.

Álagskenning Robert Agnew

Robert Agnew kom fram með endurbætta útgáfu af kenningu Mertons, árið 1992, sem almennt er nefnd Álagskenningin eða General Strain Theory. Þar segir hann að líta þurfi á fleiri þætti en einungis lélega efnahagslega stöðu einstaklinga, til að geta útskýrt hvers vegna þeir leiðast út í afbrot.
Agnew lagði áherslu á að álag eitt og sér væri ekki nóg til þess að einstaklingar leiðist út í afbrot. Þættir eins og neikvæð lífsreynsla (t.d. ástvinamissir) eða neikvæð sambönd einstaklinga við aðra (t.d. misnotkun og ofbeldi í garð einstaklings) getur leitt til álags eða streitu sem síðan leiðir til þess að einstaklingur upplifir neikvæðar tilfinningar svo sem reiði eða þunglyndi, sem getur leitt til þess að þeir fremji afbrot:

Álag Reiði/þunglyndi Afbrotahegðun

Agnew tilgreindi þrjá þætti sem stýra álagi sem getur haft neikvæðar tilfinningar í för með sér og útskýrir það hvers vegna sumir einstaklingar leiðast út í afbrot vegna álags:

 1. Einstaklingar sem ekki ná að uppfylla markmið sín í lífinu, bæði núverandi og framtíðar markmið, bregðist sumir við álaginu með því að finna ólöglegar leiðir til að uppfylla þessi markmið og leiðast því út í afbrot.
 2. Álag myndast vegna brottnáms eða missis einhvers, sem einstaklingur metur að verðleikum. Dæmi um þetta er til dæmis skilnaður foreldra, ástvinamissir, sambandsslit og atvinnumissir.
 3. Einstaklingur verður fyrir neikvæðu áreiti. Álagið kemur vegna neikvæðrar lífsreynslu, neikvæðum samskiptum við aðra, eða hann býr við eða er í einhverjum neikvæðum aðstæðum eða umhverfi. Dæmi um þetta er þegar einstaklingur verður fyrir misnotkun eða ofbeldi af hálfu foreldra eða maka, og að honum gengur illa í skóla. Slík áreiti geta haft þau áhrif á ungt fólk að það leiðist út í afbrot.

Sterkasta samband milli álags og afbrotahegðunar er reiði. Þeir sem bregðast við álagi með reiði eru líklegri til að glíma við svokallað Outer-directed negative coping, það er þegar viðkomandi bregst við álaginu með reiði og kennir einhverjum öðrum um álagið sem hann er undir. Þetta kann að leiða til þess að viðkomandi vill leita hefnda og bregst þá oft við með ofbeldi.
Þeir sem bregðast við álagi með þunglyndi og kvíða eru líklegri til að glíma við það sem kallast Inner-directed negative coping, en það lýsir sér með því að viðkomandi upplifir neikvæðar tilfinningar vegna álagsins, verður þunglyndur, kvíðinn eða örvæntingafullur og kennir sjálfum sér um. Hann bregst þá til dæmis við með fíkniefnaneyslu til að deyfa neikvæðar tilfinningar sínar.

Heimildir

 • Agnew, R. (1992). Foundation for a General Strain Theory of Crime and Delinquency. Criminology, 30, 47-84.
 • Baron, S. W. (2004). General Strain, Street Youth and Crime: A test of Agnew’s Revised Theory. (Rafræn útgáfa). Criminology, 42, 457-483.
 • Hay, C. (2003). Family Strain, Gender and Delinquency. (Rafræn útgáfa). Sociological Perspectives, 46, 107-135.
 • Jang, S. J., og Johnson, B. R. (2003). Strain, Negative Emotions, and Deviant Coping Among African Americans: A Test of General Strain Theory. (Rafræn útgáfa). Journal of Quantitative Criminology 19, 79-105.
 • Jón Gunnar Bernburg. (2004). Afbrot og önnur frávik: Yfirlit um fræðin og íslenskar rannsóknir. Í Þóroddur Bjarnason og Helgi Gunnlaugsson (Ritstj.), Íslensk félagsfræði: Landnám alþjóðlegrar fræðigreinar (bls. 266-287). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
 • Lawson, T. og Heaton, T. (1999). Crime and Deviance. London: MacMillan.
 • Piquero, N. L. og Sealock, M. D. (2000). Generalizing General Strain Theory: An Examination of an Offending Population. (Rafræn útgáfa). Justice Quarterly, 17, 449-481.
 • Reid, S. T. (2006). Crime and Criminology. New York: McGraw-Hill.
 • Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ). (e.d.). Ársskýrsla SÁÁ 2006. Sótt 27. október 2007 af: http://saa.is/default.asp?sid_id=34179&tre_rod=001%7C001%7C006%7C&tId=1.
 • Thio, A. (2006). Deviant Behavior. Boston: Pearson Education.