Fara í innihald

Notandi:Sigurdur Már Jónsson/sandkassi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fréttamyndir

Fyrsta fréttamyndin var tekin á Íslandi var tekin við bæinn Gljúfurholt í Ölfusi eftir landsskjálftana miklu á Suðurlandi síðsumars 1896. Myndin var tekin af Daníel Daníelssyni ljósmyndara sem þá starfaði hjá Sigfúsi Eymundssyni sem var mágur hans. Myndin sýnir þær Þuríði Sigurðardóttur húsfreyju í Gljúfurholti og Sigríði Grímsdóttur dóttur hennar.[1] Þær stilla sér upp fyrir ljósmyndarann fyrir framan bráðabirgðaskýli sem gert hefur verið við bæinn eftir jarðskjálftana. Daníel hafði lagt í sérstaka ferð austur fyrir fjall til þess að taka myndir af mönnum og mannvirkjum eftir jarðskjálftana og líklega var það í fyrsta sinn sem slíkt gerðist hér á landi. Daníel lagði á sig mikið erfiði á þessu ferðalagi og lenti meðal annars í lífshættu og miklum hrakningum á svonefndum Arnarbælisforum og er ekki vitað til að fyrr hafi ljósmyndari lagt líf sitt í hættu til þess að ná myndum af atburðum hér á landi. Þótt myndin hafi ekki birst strax, heldur liðið allnokkur tími, telst hún þó, vegna þess hvernig til myndatöku var stofnað, vera fyrsta íslenska fréttamyndin sem vitað er um.

Fyrsta raunverulega fréttamyndin sem birtist í íslensku blaði mun vera mynd af Friðriki VIII konungi ávarpa fólk á svölum Amalieborgar eftir að hann tók við völdum í janúar 1906. Myndin birtist í Ísafold 17 dögum eftir að atburðurinn gerðist og var fengin að láni úr Politiken í Kaupmannahöfn. [2]

  1. „„Elzti ljósmyndari á Íslandi". Lemúrinn. Sótt 28. ágúst 2019.
  2. „Þetta gerðist...“. www.mbl.is. Sótt 28. ágúst 2019.