Nýja Ísland
- Getur líka átt við bók Guðjóns Arngrímssonar, Nýja Ísland um vesturfarana og það nýja þjóðskipulag sem fólk sá fyrir sér að lokinni búsáhaldarbyltingunni. Nýja Ísland
Nýja Ísland er svæði í Kanada þar sem Íslendingar settust að í lok 19. aldar og er hluti af Manitoba. Landnámið í Nýja íslandi nefndist Vatnsþing og skiftist í fjögur byggðarlög er nefndust Víðirnesbyggð, Árnesbyggð, Fljótsbyggð og Mikleyjarbyggð.
Jarðfræðileg staðsetning Nýja Íslands
[breyta | breyta frumkóða]Nýja Ísland er í Kanada, langt inni í meginlandi Norður-Ameríku, mitt á milli Atlandshafsins og Kyrrahafsins. Á ísaldartímabilinu fyrir um tíu þúsund árum var jökull yfir öllu norðanverðu meginlandi Ameríku. Þegar fór að hlýna og jökullinn hopaði myndaðist afar stórt jökullón sem var að flatarmáli um 350 þúsund ferkílómetrar að stærð sem jafngildir þrisvar til fjórum sinnum flatarmáli Íslands og náði yfir 200 metra dýpt. Á nokkrum þúsundum ára bráðnaði jökullinn alveg. Eitthvað af vatninu gat runnið til sjávar en það sem var eftir, varð að tveimur af stærri stöðuvötnum heims sem heita Winnipegvatn og Manitobavatn.[1]
Við vesturströnd Winnipegvatns er landsvæði sem var nánast óbyggt Evrópumönnum á áratugnum 1881 – 1890 (áratugurinn sem langmesta vesturfaraskeiðið var á Íslandi)en eitthvað af frumbyggjum bjó þar fyrir. Kanadastjórn úthlutaði íslendingum þetta landsvæði sem var nefnt Nýja Ísland og skiptist í fjórar byggðir.[2]
Burtþrá Íslendinga
[breyta | breyta frumkóða]Á tímabilinu 1846 – 1914 fluttust um 52 milljónir Evrópubúa til Ameríku. Þar af voru um 5% Norðurlandabúar sem voru rétt rúmlega 2,6 milljónir manns og þar af voru um 15 þúsund Íslendingar eða fimmtungur þjóðarinnar á þeim tíma. Sumir fengu heimþrá eða undu sér að einhverjum ástæðum ekki í Ameríku og fluttu aftur til Íslands en þeir eru ekki taldir með í þessum tölum.[3]
Á Íslandi var tímabilið 1881 – 90 mesta vesturfaraskeiðið, langflestir lögðu leið sína til Kanada og má ætla að það hafi stafað af áróðri stjórnvalda í Kanada sem voru í samvinnu við skipafélagið Allan Line.[4] Innflytjendum bauðst meðal annars búskaparland til að búa á ókeypis.[5][6]
Margar ástæður voru fyrir þessari útþrá og ein af þeim var mikið kuldaskeið sem reið yfir landið.[7][8] Öskrandi stórhríð skall á 30. maí 1871 svo fé fenti víða í kaf og lömb króknuðu. Um svipað leyti hlupu snjóflóð fram og hafís rak að landi.[9] Askja átti einnig stóran þátt þegar hún gaus árið 1875 og lagði allt að 20 sm þykkt öskulag yfir stóran hluta Austurlands sem varð nánast óbyggilegt um tíma.[10]
Annars er ekki hægt að segja til um ástæðu hvers einstaklings fyrir sig því fólk hafði mismunandi ástæður og aðeins hægt að geta sér til um hið undarlegt sambland uppgjafar og hugprýði sem leiddi fólk útí þetta mikla ævintýri. Enginn vissi upp á hár hvað byði handan hafsins og því er óhætt að segja að fólk hafi tekið mikla áhættu því fólk hafði oft ekkert milli handanna þegar búið var að borga farmiðann til Kanada.[11][12][13]
Nýr heimur
[breyta | breyta frumkóða]Nýja Ísland skiptist í fjórar byggðir: Ísafoldarbyggð tilheyrði strangt til tekið ekki nýlendunni en þar var samt sem áður allnokkur byggð; Árborg tilheyrði ekki upphaflega landnáminu en er nú eitt helsta þéttbýlið eftir að lestarsamgöngur hófust; Íslendingafljót og Gimli urðu fljótlega tveir helstu pólar byggðarinnar og Gimli höfuðstaðurinn.[14]
Fyrstu landnemarnir komu til Nýja Íslands síðla hausts árið 1875. Svæðið taldist varla tilheyra hinum siðmenntaða heimi og fyrstu ummerki sem þeir urðu varir við um mannfólk voru híbýli indjána. Þeir voru eina fólkið sem hafði sest þar að og voru íslendingar því fyrsta hvíta fólkið til að búa þar.[15]
Það er ekki hægt að segja að fyrstu mánuðirnir hafi verið dans á rósum því vetur var fram undan og landnemarnir flestir alls lausir. Nýja Ísland var algjör nýlenda fyrir utan indjánana svo íslensku nýbúarnir þurftu að byrja algjörlega frá grunni og ekki bætti úr skák að þessi fyrsti vetur þeirra var ekki í blíðari kantinum.[16] Fólk hófst handa við að smíða kofaskjól til að hýrast í um veturinn.[17] Einn landnemanna, Skafti Arason, segir frá í lýsingu sinni á þessu nýja upphafi að ekki hafi þurft að byggja yfir neinn kvikfénað því af því tagi var ekkert til nema einn hvolpur sem honum hafði verið gefinn á leiðinni.[18]
Landkostir á Nýja Íslandi voru sagðir nokkuð góðir því landið var skógi vaxið en vel fallið til akuryrkju. Winnipegvatn var talið frekar fiskisælt og loftslag venjulega þurrt og heitt á sumrin en frekar kalt á veturna.[19] Nýbúarnir náðu því að koma undir sig fótunum að lokum þrátt fyrir erfiðan vetur.[20]
Bóluvetur
[breyta | breyta frumkóða]Haustið 1876 kom annar hópur frá Íslandi í von um betra líf sem innihélt um 1200 manns og var nefndur stóri hópurinn. Það sem tók á móti þeim var hins vegar ekki fögur sjón því mikil veikindi og mannslát herjuðu á vesturfarana þetta sumar og haust.[21][22]
Það var ýmislegt sem hélst í hendur við að orsaka þessi veikindi og má þar nefna skort á hreinlæti. Hægt er að gera sér í hugarlund að við slíkar frumstæðar aðstæður sem þetta fólk bjó við, er ekki leikur einn að halda hreinlátt heimili. Matur var framandi og drykkjarvatn óhollt og þá sérlega íslendingum sem voru góðu vatni vanir. Eins vissu mæður oft ekki hvernig átti að komast til móts við steikjandi hita á sumrin sem olli börnum þeirra óþægindum. Þetta leiddi til veikinda og þá aðalega bólusóttar sem var virkilega skæð og drap marga.[23][24]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Guðjón Arngrímsson, 165.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, 165 og 159.
- ↑ Gunnar Karlsson, bls. 20 og 26.
- ↑ Gunnar Karlsson, bls. 23.
- ↑ Guðjón Arngrímsson. bls. 123
- ↑ Gunnar Karlsson, bls. 27.
- ↑ Gunnar Karlsson, bls. 112.
- ↑ Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, bls. 83.
- ↑ Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, bls. 83.
- ↑ Gunnar Karlsson, bls. 27.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 28.
- ↑ Gunnar Karlsson, bls. 22 og 113.
- ↑ Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, bls. 7.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 159.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 138.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 142, 143 og 149.
- ↑ Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, bls. 211.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 137 og 141.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 165 og 168.
- ↑ Gunnar Karlsson, bls. 27.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 152 og 153.
- ↑ Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, bls. 100.
- ↑ Guðjón Arngrímsson, bls. 152 og 153.
- ↑ Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, bls. 100.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Guðjón Arngrímsson. 1997. Nýja Ísland. Örlagasaga vesturfaranna í máli og myndum. Reykjavík: Mál og menning.
- Gunnar Karlsson o.fl. 2009. Saga Íslands. Tíunda bindi. Þjóðhátíðarútgáfa. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
- Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson. 2006. Nýir tímar. Saga Íslands og umheimsins frá lokum 18. aldar til árþúsundamóta. Reykjavík: Mál og menning.
- Þorsteinn Þ. Þorsteinsson. 1940. Saga Íslands í vesturheimi. Fyrsta bindi. Reykjavík: Prentsmiðjan Edda h.f.