Michael Crichton
John Michael Crichton (23. október 1942 – 4. nóvember 2008) var bandarískur rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Bækur hans hafa selst í yfir 200 milljónum eintaka um allan heim og yfir tugur þeirra hefur verið kvikmyndaður. Bækur hans falla flestar í flokk vísindaskáldskapar, tæknitrylla og læknaskáldskapar. Skáldsögur hans fjalla oft um nýja tækni og mistök í samskiptum manna við hana, sérstaklega líftækni sem leiðir til hörmunga. Margar af skáldsögum hans byggjast á læknisfræðilegi eða vísindalegi þekkingu, sem endurspeglar bakgrunn Crichtons sjálfs.
Crichton lauk doktorsprófi frá Harvard Medical School árið 1969 en stundaði ekki lækningar og kaus að einbeita sér að skrifum sínum í staðinn. Hann hóf að skrifa undir dulnefni. Skáldsögur hans urðu 26 talsins. Meðal þeirra þekktustu eru The Andromeda Strain (1969), The Terminal Man (1972), Lestarránið mikla (1975), Congo (1980), Sphere (1987), Júragarðurinn (1990), Rising Sun (1992), Afhjúpun (1994), Horfinn heimur (1995), Airframe (1996), Timeline (1999), Prey (2002), State of Fear (2004), og Next (2006). Nokkrar ókláraðar skáldsögur voru gefnar út eftir dauða hans árið 2008 en þær voru mislangt komnar.
Crichton tók einnig þátt í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum. Árið 1973 skrifaði hann og leikstýrði Westworld, fyrstu myndinni sem notaði tvívítt tölvugert myndefni. Hann leikstýrði einnig Coma (1978), The First Great Train Robbery (1979), Looker (1981), og Runaway (1984). Hann var höfundur sjónvarpsþáttanna ER (1994–2009), og nokkrar af skáldsögum hans voru kvikmyndaðar, einkum Jurassic Park-bókaröðin.
Hann var á öndverðum meiði við meginstraumsvísindamenn í ýmsum málefnum, svo sem loftslagsbreytingum, hættu vegna reykinga og leit að lífi á öðrum hnöttum.[1][2] Crichton sjálfur setti þessa andstöðu fram sem „hagnýta efahyggju“ um vísindi sem byggja á samþykki, með þeim rökum að of mikil trú á tölfræðilíkönum skapi möguleika á hlutdrægni, sérstaklega þegar fólk er beitt pólitískum og samfélagslegum þrýstingi eins og löngun til að afstýra kjarnorkustríði.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ David Gorski (15. febrúar 2016). „Zika virus, microcephaly, and calls to bring back DDT (Rachel Carson revisionism edition)“. Science Based Medicine.
- ↑ 2,0 2,1 Michael Crichton (17. janúar 2003). „Aliens Cause Global Warming (Lecture Transcript)“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. febrúar 2021. Sótt 17. nóvember 2021.