Miðhausthátíðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Miðhausthátíðin (Zhōngqiū Jié)(kínverska: 中秋節), einnig kölluð tunglkökuhátíðin, er önnur mikilvægasta hátíðin í Kína á eftir nýársfögnuðinum. Hún á rætur að rekja til Kína en er í dag haldin hátíðleg víða í Austur og Suðaustur Asíu. Hátíðin dregur nafn sitt frá tímasetningu sinni. Hún fellur á fimmtánda degi sem er miðja mánaðarins og í áttunda tunglmánuði sem er miðja haustsins. Á þessum degi er fyllsta og skærasta fulla tungl ársins að mati Kínverja og ríkuleg hefð fyrir því að tilbiðja tunglið og tunglgyðjuna.

Miðhausthátíðarhöld í Singapore

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Allt frá dögum Shang keisaraveldisins (u.þ.b. 1600-1046 f.Kr.) hafa Kínverjar haldið uppskeruhátíð á fullu tungli á haustmánuðum. Á tímum fyrri hluta Zhou veldisins (1045-770 f.Kr.) fór fólk að færa fórnir til tunglsins og tilbiðja tunglgyðjuna. Undir stjórn Song keisarans (960-1279) var fimmtándi dagur áttunda tunglmánaðar valinn sem opinber dagur miðhausthátíðarinnar og árið 2008 var sá dagur gerður að almennum frídegi í Kína.

Fornir keisarar tilbáðu tunglið til að þakka fyrir góða uppskeru og biðja fyrir farsælli framtíð. Aðrir íbúar sáu hátíðina sem tækifæri til að fagna vinnusemi sinni og velgengni eftir uppskeru sumarsins. Tunglið var talið búa yfir endurnýjanlegum kröftum og var stundum tengt við tíðahring kvenna. Því var algengt að óléttar konur væru meðal þeirra sem báðu til tunglsins og færðu því fórnir á þessum degi.

Chang'e og Huo Yi[breyta | breyta frumkóða]

Á miðhausthátíðinni er tunglgyðjan heiðruð og henni færðar fórnir. Tunglgyðjan er talin hafa verið mannleg áður en hún varð gyðja og hét hún Chang‘e. Sagan segir að eitt sinn hafi tíu sólir fyllt himinninn og búið til hræðilega hita- og þurrkatíð sem varð til þess að jörðin var nærri óbyggileg. Ungur maður að nafni Hou Yi, sem var þekktur fyrir hugrekki og bogfimihæfileika sína, ákvað að skjóta niður níu sólir og skilja aðeins eina eftir svo ljós yrði á jörðinni. Fyrir þrekverk sitt fékk hann sendan frá himnum töfradrykk sem gat gert hann ódauðlegan. Hann var hins vegar yfir sig ástfanginn af eiginkonu sinni, Chang‘e, og vildi alls ekki skilja hana eftir á jörðinni ef hann yrði ódauðlegur. Tvennum sögum fer að því hvort Hou Yi hafi gefið Chang‘e töfradrykkinn, eða hvort hún hafi neyðst til að drekka hann þegar innbrotsþjófur reyndi að stela því. En Chang‘e drakk töfradrykkinn og varð samstundis ódauðleg. Hún sveif upp í himinninn og settist að í tunglinu til að vera sem næst jörðinni. Þetta varð til þess að Chang‘e er þekkt sem tunglgyðjan.

Vegna ástarsögu Chang‘e og Hou Yi er miðhausthátíðin oft séð sem hátíð ástarinnar og borin saman við Valentínusardaginn. Hátíðin er talin henta afar vel til brúðkaupa þar sem tunglgyðjan er sögð vera fær um að lengja hjónabandssælu giftra para. Einnig hefur skapast hefð fyrir því að halda samkomur fyrir ungt fólk þar sem þeim gefst tækifæri til að reyna að kynnast framtíðarmaka sínum vegna þess hve heppileg hátíðin er fyrir ástarsambönd.

Trúartenging í daoisma[breyta | breyta frumkóða]

Miðhausthátíðin einskorðast ekki við ein trúarbrögð og er túlkun hennar mismunandi eftir löndum og landshlutum í Kína. Hins vegar er hún mikilvæg hátíð í daoisma þar sem uppruni Chang‘e er talinn liggja þar. Daoistar byggja altari sem snýr að tunglinu til heiðurs Chang‘e sem þeir fylla af reykelsi, baðsöltum, sápum og öðrum snyrtivörum. Ástæða þess er að hún veitir þeim sérstaka athygli sem tilbiðja hana séu þeir útlistlega upp á sitt besta. Chang‘e er samt sem áður ekki eina gyðjan eða guðinn sem daoistar tengja við Miðhausthátíðina. Hátíðin er í daoisma haldin hátíðleg sem afmæli himnesku Yin gyðjunnar. Tunglið er talið búa fyrir afar sterkri Yin orku, sem er meðal annars talin kvenleg, og því voru það lengi vel aðeins konur sem tóku þátt í byggja altari fyrir Yin gyðjuna í tunglsljósinu og færa henni fórnir.

Hátíðarhöld[breyta | breyta frumkóða]

Hefðbundin tunglkaka

Hátíðarhöldin eru í dag fyrst og fremst tækifæri til að koma saman með vinum og fjölskyldu. Fjölskyldur borða tilkomumikla máltíð saman, oft undir berum himni, ásamt því að horfa á tunglið, brenna reykelsi til heiðurs guða og gyðja, taka þátt í drekadönsum, bera ljósaluktir og margt fleira.

Tunglkökur[breyta | breyta frumkóða]

Tunglkökur eru eitt helsta tákn miðhausthátíðarinnar og mikilvægur hluti af hátíðarhöldunum. Kökurnar eru hringlaga, fylltar kökur sem oft eru skreyttar með vönduðum myndum eða táknum úr goðsagnakenndum sögum hátíðarinnar. Hringlaga form þeirra er meðal annars talið tákna fullt tungl, endurfundi, fullkomnun og samheldni. Þær eru því vinsæl gjöf milli fjölskyldumeðlima og vina í hátíðarhöldunum. Margar fjölskyldur baka kökurnar saman og deila þeim við matarborðið eða í tunglsljósinu í kringum hátíðina. Hefðbundnar fyllingar í tunglkökum eru lótusfræjamauk, sætbaunamauk, eggjarauður, hnetur eða ávextir en nýrri útgáfur af kökunum eru til dæmis fylltar með súkkulaði, trufflum og ís.

Tunglkökur eru sagðar hafa spilað lykilhlutverk í frelsun Kína undan Mongólum á 14. öld. Þá notuðu uppreisnarmenn tunglkökur til að fela leynileg skilaboð sín á milli, meðal annars um að uppreisn þeirra myndi hefjast á miðhaustdegi. Þetta kom til með að breyta merkingu hátíðarinnar og tunglkökunnar að einhverju leiti sem tengdist þá frelsinu.

Ljósluktir á Miðhausthátíðinni

Ljósaluktir[breyta | breyta frumkóða]

Annað mikilvægt tákn miðhausthátíðarinnar eru ljósaluktir. Upprunaleg tenging þeirra við hátíðina er óljós en þær hafa lengi verið notaðar í tenginu við tungldýrkun. Meðal þess sem er gert við luktirnar á hátíðinni er að sleppa þeim upp í himininn eða út á vatn og ganga með þær í hátíðarhöldunum. Þær eru einnig notaðar í ýmsa leiki, svo sem gátuleiki.