Merki Knattspyrnufélagsins Fram

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Merki Knattspyrnufélagsins Fram

Merki knattspyrnufélagsins Fram er einkennistákn Knattspyrnufélagsins Fram. Það var hannað af Eríki Jónssyni árið 1930.

Merkjasaga Fram[breyta | breyta frumkóða]

Knattspyrnufélagið Fram nefndist upphaflega Knattspyrnufélagið Kári. Á þeim skamma tíma sem Kára-nafnið var við lýði var ákveðið að merki félagsins skyldi vera blár hringur með hvítum krossi og félagsnafninu rituðu inn í krossinn. Ekki er þó vitað hvort merki þetta var nokkru sinni búið til og því vafasamt að telja það fyrsta félagsmerki Fram.

Fram og Fótboltafélag Reykjavíkur (síðar Knattspyrnufélag Reykjavíkur) léku knattspyrnuleik á Landsmóti UMFÍ á Melavellinum þann 17. júní 1911. Á ljósmyndum sést að Framararnir léku í hvítum treyjum með merki á hægra brjósti. Merkið var dökkur skjöldur (væntanlega blár) með hvítum skáborða. Á borðanum var letrað FRAM. Ekkert eintak hefur varðveist af þessu merki og engin formleg samþykkt er til um það.

Þegar Fram og Fótboltafélagið mættust á fyrsta Íslandsmótinu sumarið 1912, var merkið á bak og burt. Framarar höfðu þá tekið upp bláu treyjurnar sem fylgt hafa liðinu síðan. Í stað merkis var saumaður stór hvítur borði á mitt skyrtubrjóstið með áletruninni FRAM. Slíka borða má sjá á myndum af leikmönnum Fram næstu árin, en á liðsmynd af Íslandsmeisturunum 1925 er borðinn horfinn og búningurinn algjörlega ómerktur.

Árið 1929 fékk stjórn Fram heimild aðalfundar til að láta útbúa félagsmerki. Tveir dyggir og listfengir félagsmenn, Arreboe Clausen og Eríkur Jónsson, unnu fjölmargar tillögur sem hafa því miður glatast. Að lokum varð ein af tillögum Eiríks fyrir valinu og hafa Framarar borið merkið frá árinu 1930.

Eiríkur Jónsson var gerður að heiðursfélaga Fram árið 1943.