Markhyggja
Markhyggja (teleologia) er sú hugmynd að endanleg útskýring á orsökum fyrirbæris, atburðar eða athafnar verði að hafa skírskotun til tilgangs eða ætlunar, það er að segja vísa til þess marks sem stefnt var að. Þannig hafi hver hlutur markmið eða tilgang með tilveru sinni og það sé eðli hlutanna að þjóna þeim tilgangi. Hnífur hafi þann tilgang að skera og sjónvarp þann tilgang að sýna myndir.
Taka má dæmi af líffræðilegri útskýringu á þróun lífveru, t.d. hunds. Markhyggjuskýring á öflugu þefskyni hundsins myndi vísa til þess hvaða tilgangi þefskynið þjónar hjá hundinum. Þróunarkenning Darwins og nútíma líffræði hafna markhyggju og útskýra öflugt þefskyn hunda fremur þannig að hundar hafi öflugt þefskyn af því að þeir eru afkomendur einstaklinga sem höfðu sömu eiginleika; og þeir eru afkomendur þessara einstaklinga af því að við þáverandi aðstæður voru lífslíkur einstaklinga með öflugt þefskyn betri en hinna.
Sköpunarhyggja er dæmi um markhyggju en hún gerir ráð fyrir að heimurinn sé skapaður eða hannaður og hafi tilgang. Hugmyndir um vithönnun eru markhyggjuhugmyndir.