Margrét Skúladóttir
Margrét Skúladóttir (um 1208 – 1270) var norsk jarlsdóttir og drottning Noregs frá 1225 þar til maður hennar, Hákon gamli, lést í árslok 1263.
Margrét var dóttir Skúla jarls Bárðarsonar og Ragnhildar Jónsdóttur konu hans. Faðir hennar var hálfbróðir Inga Bárðarsonar konungs og gerði tilkall til krúnunnar þegar Ingi dó 1217 en Hákon Hákonarson var valinn í hans stað. Skúli varð þá ríkisstjóri og réði mestu um stjórn landsins fyrstu ár Hákonar á konungsstóli en þegar frá leið dró úr völdum hans og um leið jókst togstreita milli konungs og jarls. Árið 1219 var samið um giftingu Hákonar og Margrétar dóttur Skúla og voru það ráðgjafar Hákonar sem áttu hugmyndina og vildu með því reyna að draga úr líkum á að Skúli reyndi á ný að gera tilkall til krúnunnar. Hún var þó of ung til að giftast og brúðkaupið var ekki haldið fyrr en 25. maí 1225.
Mægðirnar dugðu þó ekki til. Samskipti þeirra tengdafeðganna versnuðu stöðugt og lauk með því að Skúli gerði uppreisn árið 1239 og lét taka sig til konungs á Eyraþingi en tapaði í baráttunni við Hákon og var drepinn í Niðarósi 1240. Sagt er að Margrét hafi tekið deilur þeirra mjög nærri sér og að sjálfsögðu dauða föður síns einnig.
Samkvæmt því sem segir í sögu Hákonar virðist Margrét oftast hafa verið í för með honum þegar hann ferðaðist á milli landshluta en fátt er vitað um hana sjálfa. Hún virðist ekki hafa haft nein pólitísk áhrif né heldur sóst eftir þeim. Þau Hákon eignuðust þrjú börn sem upp komust, Hákon unga, Magnús lagabæti og Kristínu.
Hákon dó í Orkneyjum í árslok 1263 og Magnús sonur þeirra tók við. Margrét var hjá honum næstu árin en tók sér bólsetu í klaustri 1267 og var þar líklega til dauðadags 1270.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Margrete Skulesdatter“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. september 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Margrét Skúladóttir“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. september 2010.