Fara í innihald

Majar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svæði þar sem Majar bjuggu.

Majar eru menningarþjóð frá Mið-Ameríku, þekkt fyrir að hafa þróað eina skrifaða tungumálið í Ameríku fyrir komu Kólumbusar. Einnig eru þeir þekktir fyrir myndlist, arkitektúr, stærðfræði og stjarnfræði.

Samfélag Maja varð til og óx stöðugt á tveimur fyrstu árþúsundum fyrir Krist en margar borgir þeirra náðu menningarlegu hámarki á fyrsta árþúsundi eftir Krist og fram að komu Spánverja. Á hápunkti sínum var samfélag Maja eitt það þéttbýlasta og menningarlega auðugasta í heimi.

Samfélag Maja á margt sameiginlegt með öðrum nærliggjandi menningarsamfélögum í miðameríku sem má rekja til mikilla samskipta og samruna menningarheima þeirra. Framfarir eins og skrift, steinskrift og dagatalið varð ekki upprunalega til í samfélagi Maja en þeirra menning fullkomnaði þessa hluti. Áhrif Maja má rekja svo langt sem inní mitt Mexíkó, meira en 1000 km frá landsvæði þeirra. Utan aðkomandi áhrifa er að gæta í list og arkitektúr Maja sem talið er að megi rekja til menningar- og viðskiptalegra samskipta, frekar en til markvissra landvinninga. Majaletrið var kallað „híróglýfur“ af fyrstu evrópsku landkönnuðunum á 18. og 19. öld. Híróglýfur mætti þýða sem stílfærða mynd af hlut sem táknar orð, atkvæði eða hljóð.

Majaletur í minjasafni í Mexíkó.

Um langan tíma töldu fræðimenn að Majaletrið stæði alls ekki fyrir neitt tungumál né að það væri fullklárað leturkerfi. Fyrstu straumhvörfin í afkóðun á Majaletrinu voru í kringum 1950. Það var rússneska þjóðháttafræðingnum, Júrí Valentínóvitsj Knorosov, að þakka en hann kom með þá tillögu að letrið táknaði allavega að hluta til hljóð og stæði fyrir júkatísku.

Majar voru samansafn af mörgum þjóðum með öðruvísi en tengdri menningu, tungumáli og trúarbrögðum. Af mörgum Majamálum voru aðeins 2 til 3 skrifuð niður í áðurnefndu myndleturkerfi. Majaletrið samanstóð af margþátta táknum, sem voru vandvirknislega máluð á leir, veggi og pappír gerðan úr trjáberki. Táknin voru einnig grafin í við og stein. Mörg þeirra sem máluð voru hafa enst jafn vel og þau sem grafin voru.

Það er almennt talið að hægt sé að lesa í kringum 3/4 af Majaletrinu nú á dögum með þónokkuri nákvæmni, nægilega mikilli til þess að gefa okkur vitneskju um uppbyggingu þess.

Útlitsbyggingin á Majaletrinu er áhugaverð. Hún samanstendur af mörgum ferhyrningum sem er raðað í beinar línur og í margar raðir. Hver og einn ferhyrningur er fullur af smáatriðum sem samanstanda af allt frá einu til 5 stafatáknum sem mynda oft heil orð eða orðasambönd. Í Majaletrinu eru í kringum 550 tákn sem voru fyrir heil orð og 150 sem tákna atkvæðishljóð. Einnig voru í kringum 100 tákn sem stóðu fyrir nöfn á stöðum og nöfn Guðanna. Það er talið að 300 tákn hafi verið í almennri notkun. Mörg tákn stóðu fyrir sömu atkvæðishljóðin.

Aflestur Majaletursins var ekki eins augljós og það leit út fyrir við fyrstu sýn. Þar sem táknunum er raðað eftir grindarkerfi þá myndi maður halda að lesið væri í annaðhvort röðum eða dálkum. Í raun er letrið lesið í dálkapörum, sem þýðir að fyrsta táknið er efst til vinstri, það næsta strax á eftir því og hið þriðja beint undir því fyrsta, hið fjórða undir öðru tákninu og svo framvegis. Útkoman er eins konar „sikksakk“-aflestur. Þegar þú kemst á botninn á þessu dálkapari, þá verður þú að fara alla leið upp og hefja lesturinn á fyrsta tákni í næsta dálkapari. Fræðimenn merkja lárétt dálkapör með bókstöfum og lóðrétt með tölustöfum. Því myndi röðin sem lesið er í vera svona: A1, B1, A2, B2 osfrv. þangað til þú kemst á botninn. Þá hefst lesturinn á C1, D1, C2, D2 o.s.frv.

Majaletursins var langt og erfitt vinnuferli. Rannsakendum á 19. og 20. öld tókst að ráða í tölukerfið og búta úr textum sem tengdust stjörnufræði og Majadagatalinu, en skilningur á heildinni var fræðimönnum ráðgáta. Á fjórða áratugnum skrifaði Benjamin Whorf nokkrar birtar og óbirtar ritgerðir þar sem hann taldi sig geta ráðið í málhljóðshluta skriftarkerfisins. Þótt að afmörkuð atriði í ráðningu Whorfs hafi verið afsönnuð síðar meir þá má segja að meginhlutinn, þ.e.a.s. að híróglýfur Maja einkenndust af atvikshljóðum, hafi verið á rökum reist. Undir það tók Júrí Knorosov, en hann átti stóran þátt í því að ráða í Majaletrið. Árið 1952 birti hann greinina Ancient Writing Of Cental America, þar sem hann hélt því fram að hið svokallaða „de Landa“-stafróf sem var að finna í handriti Diego de Landa biskups, Relacion de las Cosas de Yucatan, væri einmitt gert úr atkvæðahljóðum frekar en stafrófi með hefðbundnum bókstöfum. Hann þróaði enn frekar ráðningarkerfi sitt í greininni „The Writing of the Maya Indians“ og birti þýðingar á handritum Maja í bók sinni Maya Hieroglyphic Manuscripts, sem kom út árið 1975. Frá og með 9. áratugnum hefur verið sýnt fram á að flest táknin mynda ákveðin atkvæði og jafnframt hefur ráðning í letrið gengið hratt og örugglega síðan þá.

  • Mayan Script á Omniglot.com
  • Mayan Script á Crystalinks.com
  • Maya á Ancientscripts.com
  • „Hvaða þjóðflokkur er Toltekar og hver eru tengsl hans við Maya og Azteka?“. Vísindavefurinn.