Fara í innihald

Laugarvatnshellar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Laugarvatnshellar 2024

Laugarvatnshellar eru manngerðir móbergshellar í Reyðarbarmi á Laugarvatnsvöllum, miðja leið milli Þingvalla og Laugarvatns. Hellarnir voru tveir, annar fjögurra metra breiður og 12 metra langur, en hinn álíka langur en mjórri. Hefur skilrúm milli þeirra nú hrunið niður. Hellarnir eru þekktir fyrir að það var búið í þeim í byrjun 20. aldar. Á fyrri öldum voru þeir notaðir sem sæluhús. Mikið er um veggjakrot í móberginu á hellisveggjum og utan við hellismunnana, nöfn, fangamörk, ártöl, bílnúmer o.fl. Árið 2017 voru hellarnir endurbyggðir í upprunalegri mynd.[1]

Laugarvatnshellar árið 2010

Ábúendur 1910-1911[breyta | breyta frumkóða]

Indriði Guðmundsson og Guðrún Kolbeinsdóttir hófu búskap í hellunum árið 1910, en land var ekki á lausu í sveitinni, þaðan sem Indriði var ættaður. Þrátt fyrir að Indriði væri einungis 22 ára og Guðrún 17 bjuggu þau í hellinum í eitt ár og starfræktu veitingasölu við þjóðveginn. Af veitingasölunni fengu þau nokkrar tekjur sem auðveldaði þeim að flytjast annað. Seinna stunduðu þau búskap í Reykjavík og ráku Indriðabúð að Þingholtsstræti 15.

Ábúendur 1918-1921[breyta | breyta frumkóða]

Sjö árum eftir að fyrri ábúendurnir yfirgáfu hellana settust önnur ung hjón þar að. Í þetta skiptið voru á ferðinni Jón Þorvarðarson og Vigdís Helgadóttir, en Jón var ættaður úr sveitinni líkt og Indriði. Þau bjuggu mun lengur í hellunum, eða í fjögur ár, og ól Vigdís þrjú börn á þessum tíma, þar af voru tvö fædd í hellinum. Eitt barnanna sem ólst upp í hellunum er Magnús Jónsson, sem lést 2013 og kallaði sig síðasta núlifandi hellisbúann á Íslandi. Hann fæddist þó ekki í hellinum en ólst þar upp fyrstu tvö ár ævi sinnar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Morgunblaðið, 30. júní 2008: bls. 12.
  • Hellarnir á Lyngdalsheiði; grein í Morgunblaðinu 10. janúar 1999
  • Árni Hjartarson, Guðmundur J. Guðmundsson og Hallgerður Gísladóttir (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
  1. „Hellirinn var heimili fólks“. www.mbl.is. Sótt 1. júlí 2024.