Fara í innihald

Lögmætisreglan (Evrópusambandið)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lögmætisreglan er ein af grunnreglum Evrópuréttarins. Samkvæmt reglunni má Evrópusambandið og stofnanir þess ekki grípa til hvaða ráðstafana sem er til að ná markmiðum sínum, heldur þurfa ráðstafanir þess og stofnana þess (t.d. setning tilskipana eða rammatilskipana) að eiga sér lagastoð í sáttmálum um sambandið. Hugmyndin að baki reglunni er að vernda aðildarríkin gegn fullveldisframsali sem þau hafa ekki samþykkt sem og að afmarka verksvið stofnanna sambandsins gagnvart hverri annarri og viðhalda „stofnanalegu jafnvægi“ (þýs. institutionelles Gleichgewicht).[1]

Lögmætisreglan hefur tvær hliðar. Annars vegar snýr lögmætisreglan að Evrópusambandinu sem slíku og takmarkar þá völd sambandsins gagnvart aðildarríkjunum [2] Þurfa aðgerðir sambandsins að vera innan þeirra valdmarka sem aðildarríkin hafa sett sambandinu í samningum um sambandið. Þannig haldast öll völd sem aðildarríkin hafa ekki framselt sambandinu hjá aðildarríkjunum. Hins vegar snýr lögmætisreglan að stofnunum Evrópusambandsins og mælir þá svo fyrir, að hver stofnun megi eingöngu grípa til ráðstafana sem rúmast innan valdmarka stofnunarinnar.[3]

Í stuttu máli verður því Evrópusambandið og stofnanir þess að geta sýnt fram á að gjörðir þeirra eigi sér stoð annað hvort beint eða með túlkun annars vegar sáttmála um Evrópusambandið eða hins vegar sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins.

Af þessu leiðir til dæmis að stofnanir sambandsins hafa ekki val um hvort þau senda frá sér reglur í formi tilskipunar eða rammatilskipunar ef þau eiga að nota annað hvort formið samkvæmt þeirri lagaheimild sem er að baki setningu reglnanna. Þá þurfa stofnanir sambandsins að halda sig við þá málsmeðferð við setningu reglna sem mælt er fyrir um í lagaheimild að baki reglunum.[4]

Ef tvö eða fleiri ákvæði heimila aðgerðir sambandsins er talið að sambandið verði að aðgerðirnar styðjist við öll ákvæðin. Þetta á þó ekki við ef mismunandi málsmeðferðarreglur gilda samkvæmt ákvæðunum. Þarf þá viðkomandi stofnun sambandsins að velja á milli þeirra réttarheimilda sem hún ætlar að styðja ráðstöfun sína við.[5]

Athugasemdir og heimildir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Haratsch, Andreas. Europarecht, 7. Auflage 2010, bls. 77.
  2. Að þessu leyti er mælt fyrir um regluna í 1. málslið 1. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 5. gr. sáttmála um Evrópusambandið. http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:C:2008:115:0001:01:EN:HTML Geymt 28 október 2012 í Wayback Machine
  3. Að þessu leyti er mælt fyrir um regluna í 1. málslið 2. mgr. 13. gr. sáttmála um Evrópusambandið. http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:C:2008:115:0001:01:EN:HTML Geymt 28 október 2012 í Wayback Machine
  4. Haratsch, Andreas. Europarecht, 7. Auflage 2010, bls. 76.
  5. Haratsch, Andreas. Europarecht, 7. Auflage 2010, bls. 76.