Fara í innihald

Lífsleikni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lífsleikni (oft skammstafað LKN) er námsgrein sem gerð var að sjálfstæðri skyldunámsgrein í grunn- og framhaldsskólum með aðalnámskrá sem menntamálaráðuneytið gaf út fyrir bæði skólastigin árið 1999. Lífleiknikennslu er ætlað að efla alhliða þroska barna og ungmenna þannig að þau rækti með sér andleg verðmæti, líkamlegt heilbrigði og sálrænan styrk auk þess að efla félagsþroska sinn, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Einnig er áhersla á að styrkja áræði barna og ungmenna, frumkvæði, sköpunargáfu og aðlögunarhæfni svo þau geti tekist á við kröfur og áskoranir sem mæta þeim í daglegu lífi. Lífsleikni felur í sér víðtæka nálgun á fjölbreyttu efni þar sem aldur og þroski nemenda skiptir megin máli í efnisvali og efnistökum.

Lífsleikni er einnig eitt af áhersluatriðum í starfi leikskóla samkvæmt aðalnámskrá leikskóla sem gefin var út 1999.

Lífsleikni vísar til enska hugtaksins life skills en árið 1993 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (World Health Organization, WHO) út leiðbeinandi rit um lífsleiknikennslu í skólum. Þar er lögð áhersla á að styrkja sálfélagslega hæfni nemenda svo þeir séu betur í stakk búnir til að takast á við lífið með það að markmiði að stuðla að alhliða heilbrigði þeirra og velsæld. Færniþættir sem eru taldir í lykihlutverki í lífsleiknikennslu eru; að taka ákvarðanir, að leysa mál eða vandamál, skapandi hugsun, gagnrýnin hugsun, samskiptahæfni, góð tjáskipti, sjálfsvitund og sjálfsþekking, að sýna samhygð, að takast á við tilfinningar og að takast á við álag og streitu.

Dr. Kristján Kristjánsson, heimspekingur, hefur skipt lífsleikni, eins og hún er sett fram í aðalnámskrám frá 1999, í þrenns konar uppistöðugildi. Í fyrsta lagi hin siðferðilegu gildi. Þau eru andleg verðmæti, siðvit, virðing fyrir sjálfum sér og öðrum, alhliða þroski, gagnrýnin hugsun, mannrækt, samhygð, tilgangur leikreglna í samskiptum, sanngirni, réttlæti og kurteisi. Í öðru lagi sálræn gildi sem eru; sjálfsmynd, sálrænn styrkur, líðan, sjálfsþekking, skapandi hugsun, lífsstíll, margbreytileiki og lýsing tilfinninga, sjálfstraust, sjálfsagi, markmiðssetning og að standast þrýsting. Þriðji flokkur uppistöðugilda eru hin pólitísku gildi; þ.e. mannréttindi, borgaravitund, alþjóðavitund og jafnrétti.

  Þessi skólagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.