Kópavogshæli
Kópavogshæli var stofnun sem rekin var í Kópavogi frá 1952 - 1993 sem hjúkrunarhæli, uppeldis- og kennsluhæli og vinnuhæli fyrir fólk með þroskahömlun og aðrar fatlanir. Kópavogshæli var sett á stofn árið 1952 á grundvelli laga um fávitahæli nr. 18 frá 1936 en í þeim lögum var gert ráð fyrir að ríkið setti á laggirnar skólaheimili fyrir unga vanvita og hálfvita eða börn og unglinga sem kenna mætti ofurlítið til munns og handa, hjúkrunarheimili fyrir örvita og fávita sem ekki gætu tileinkað sér nám eða unnið sér til gagns og vinnuhæli fyrir fullorðna fávita sem voru vinnufærir en gátu ekki staðið á eigin fótum. Samkvæmt lögum um fávitastofnanir nr. 53 frá 1957 átti ríkið að reka eitt aðalhæli fyrir fávita og var það Kópavogshælið. Árið 1979 tók til starfa sérstakur grunnskóli á Kópavogshæli fyrir börnin sem þar dvöldust. Hælið heyrði alltaf undir heilbrigðisráðherra og var formlega rekið sem sjúkrahús.
Þann 1. janúar 1993 var stofnuð ný endurhæfingardeild Landsspítalans í húsnæði Kópavogshælis og hælið þar með lagt niður. Á þeim tíma voru 127 manns vistuð á deildinni. Með stofnun þessarar deildar var stefnt að breytingu á þjónustu við fjölfatlað fólk.
Sérstök nefnd, vistheimilanefnd var skipuð til að fara yfir rekstur hælisins á meðan það starfaði og skilaði hún skýrslu í janúar 2017. Nefndin fór yfir 628 sjúkraskrár en þar af voru 130 börn.
Í landi jarðarinnar Kópavogur hafði verið reist hæli fyrir berklasjúklinga árið 1926 og var ríkinu afhent húsnæði hælisins að gjöf árið 1939. Upp úr 1940 fækkaði berklasjúklingum í landinu og í staðinn komu holdsveikrasjúklingar til dvalar í húsinu sem var næstu árin kallað Holdsveikraspítalinn í Kópavogi. Árið 1945 var samþykkt að taka Kópavogshæli sem framtíðarstað fyrir fávitahæli ríkisins og landlækni heimilað að undirbúa nýbyggingu fyrir allt að 20 fullorðna karlkyns vanvita. Framkvæmdir hófust við fyrstu nýbyggingu skála árið 1949 og árið 1952.
Fyrsta vistfólkið kom á Kópavogshælið 13. desember 1952 og voru það fimm karlmenn sem komu frá Kleppjárnreykjum. Ári síðar þegar lokið var við byggingu fyrsta skálans þá voru deildirnar tvær og vistmenn 32. Þessar deildir voru kallaðar karlahælið en konur voru vistaðar þar frá 1978. Flestir sem voru þar voru með verulegar atferlistruflanir og nokkrir greindir með geðsjúkdóm. Árið 1957 var ákveðið að vista börn hjá Símoni Sigmundssyni að Efra-Seli við Stokkseyri en það var eins konar útibú frá Kópavogshæli og var starfsemi þar til 16. maí 1964.
Árið 1962 var opnuð ný hælisdeild Deild 6 í kjallara hælisins. Árið 1963 var heimilað að reisa þrjár nýjar hælisdeildir sem hver átti að rúma 15 einstaklinga. Voru deildir 7,8 og 9 teknar í notkun árin 1965 og 1966. Þessar deildir voru almennt kallaðar Lengjan. Árið 1972 voru settar á laggirnar tvær barnadeildir á Kópavogshæli, deildir 19 og 20. Við árslok 1972 voru vistaðir samtals 182 einstaklingar á hælinu. Árið 1974 er opnuð ein barnadeild til viðbótar, deild 18. Í apríl 1975 er vistfólk á Kópavogshæli alls 188 en flestir varð vistfólk um 200 en fækkaði þegar boðið var upp á göngudeild. Starfsemi göngudeildar hófst á Kópavogshæli árið 1976 og einnig var þar skammtímavistun, aðallega fyrir börn. Árið 1977 var tekin í notkun deild 10 sem hýsti 16 einstaklinga.
Árið 1978 var hluti af starfsmannahúsi Kópavogshælis tekinn undir sambýli og voru þar fyrst tvær einingar fyrir 10 einstaklinga og smán saman var allt starfsmannahúsið tekið undir fjórar slíkar einingar. Dvöldu þar 32 einstaklingar þegar flest var. Árið 1983 var tekið í notkun nýtt iðjuhús með vinnustofum og sundlaug var vígð. Fyrsta sambýlið fyrir þroskahefta var tekið í notkun á Akureyri 1975 og í Reykjavík 1976.
Styrktarsjóður vangefinna sem var stofnaður að frumkvæði Styrktarfélags vangefinna fjármagnaði byggingar Kópavogshælis fram til ársins 1980 en þá var sjóðurinn lagður niður og framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra, síðar fatlaðra tók við.
Fyrsta forstöðukona Kópavogshælis var Jóna Guðmundsdóttir. Árið 1956 til 1987 var Björn Gestsson forstöðumaður. Þá tók við Pétur Þorsteinsson sem var framkvæmdastjóri þar til hælið var lagt niður árið 1993. Ragnheiður Ingibergsdóttir eiginkona Björns Gestsonar var yfirlæknir hælisins 1956-1993 og bjuggu þau á staðnum.
Árið 1958 stofnuðu stjórnendur Kópavogshælis skóla til að mennta starfsfólk. Byggt var sérstakt starfsmannahús þar sem leiga var lág. Þau sem útskrífust frá skólanum voru fyrst nefndar gæslusystur en árið 1972 er tekið upp starfsheitið þroskaþjálfi.
Alvarlegur bruni varð á Kópavogshæli í janúar 1986 en þá lést einn vistmaður samstundis og nokkrum dögum síðar lést stúlka sem fædd var árið 1964 og hafði dvalið á hælinu frá sjö ára aldri.
Fyrstu áratugi sem hælið starfaði var matur eldaður á staðnum. Haustið 1985 var lögð niður starfsemi í eldhúsi sem var í gamalli byggingu á lóð Kópavogshælis og var matur boðinn út og lægsta tilboði tekið. Í ársbyrjun 1988 tók eldhús Vífilsstaðaspítala við matseld fyrir Kópavogshælið.