Japanskur flugsmokkfiskur
Japanskur flugsmokkfiskur | ||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Ástand stofns | ||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||
| ||||||||||||
Einkennistegund | ||||||||||||
Todarodes Pacificus
Steenstrup, 1880 |
Japanskur flugsmokkfiskur (fræðiheiti: Todarodes pacificus) er lindýr af ættbálki smokkfiska. Japanska flugsmokkfiskinn má finna víðsvegar í Norður Kyrrahafi en einnig í Norðaustur Atlantshafi en hans helsta búsvæði er í kringum Japan. Það má einnig finna tegundina við strendur Kína, Kóreu, Rússlands, Alaska og Kanada.
Lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Japanski flugsmokkfiskurinn er rauðleitur með stór augu. Hann er tvíhliða samhverfur líkt og aðrir smokkfiskar. Efst á búknum eru þríhyrningslaga uggar. Tegundin er tiltölulega smá í samanburði við aðra smokkfiska en hún getur mest náð 50 cm búklengd (Marinebio, e.d.). Kvendýrið er talsvert stærra en karldýrið. Tegundin getur náð að verða 500 grömm en algengast er að hún sé frá 100-300 grömm. Karldýrið nær kynþroska þegar búklengdin er 17-19 cm en kvendýrið þegar að búklengdin hefur náð 20-25 cm (FAO, 2024).
Japanski flugsmokkfiskurinn hefur átta arma og tvo griparma. Innanverðir armarnir eru þaktir sogskálum sem gera tegundinni kleift að halda bráðinni fastri. Griparmarnir eru töluvert lengri en hinir átta armarnir. Á milli armanna er munnurinn sem nefnist goggur. Goggurinn er gríðarlega beittur og getur tætt bráðina niður í minni bita. Innan goggsins er skráptunga sem hjálpar til við að brjóta fæðuna niður (Marinebio, e.d.).
Lifnaðarhættir og búsvæði
[breyta | breyta frumkóða]Japanska flugsmokkfiskinn má finna víðsvegar í Norður Kyrrahafi en einnig í Norðaustur Atlantshafi en hans helsta búsvæði er í kringum Japan. Það má einnig finna tegundina við strendur Kína, Kóreu, Rússlands, Alaska og Kanada. Tegundin heldur sig oftast í efri lögum sjávarins á 0-100 metra dýpi en hún hefur einnig fundist á allt að 500 metra dýpi (Marinebio, e.d.). Hentugt sjávarhitastig fyrir tegundina er 5-27 °C en tegundin flyst árstíðabundið í kringum Japan til þess að hrygna í hlýrri sjó. Kjörhitastig sjávarins fyrir hrygningu er 15-20 °C (FAO, 2024). Hærra sjávarhitastig gerir það að verkum að fósturvísir tegundarinnar þroskast hraðar. Japanski flugsmokkfiskurinn deyr fljótlega eftir hrygningu. Tegundin hefur tiltölulega stuttan líftíma eða um eitt ár frá því að hún klekst úr eggi, þroskast í fullvaxta dýr og hrygnir (Marinebio, e.d.).
Tegundin nærist aðallega á smáum fisk eins og ansjósum en einnig á allskyns krabbadýrum, sniglum og stundum öðrum smokkfiskum.
Til að forðast afrán rándýra getur tegundin flogið yfir yfirborði sjávar eins og nafnið á tegundinni gefur til kynna. Þetta gerir hún með því að draga inn vatn í gegnum búkinn og losa það við háan þrýsting þannig að hún skjótist upp í loftið. Með því að teygja út ugga sína og arma nær Japanski flugsmokkfiskurinn að svífa yfir vatninu áður en hann fer aftur ofan í sjóinn en til þess þarf hann að draga ugga og arma aftur saman. Helstu rándýrin sem éta tegundina eru stærri fiskar og sjávarspendýr eins og höfrungar, hvalir og selir (Marinebio, e.d.).
Veiðar og markaðir
[breyta | breyta frumkóða]Japanski flugsmokkfiskurinn er aðallega veiddur með handfærum en einnig með botntrollum og nótum (SeaLifeBase, e.d.). Aðeins fjórar þjóðir virðast veiða þessa tegund samkvæmt gagnagrunni FAO en það eru Japan, Suður Kórea, Rússland og Taívan. Fjögur aflahæstu löndin frá 1950-2021, þá eru Japan og Suður Kórea yfirburða aflahæstu þjóðirnar af þeim sem veiða tegundina. Árið 2021 var heildar heimsafli á Japönskum flugsmokkfisk 99.540 tonn. Þar af var Japan með 31.300 tonn, Suður Kórea með 60.851 tonn og Rússland með 7.389 tonn (FAO, 2021). Veiðar á tegundinni virðast vera í nokkurri lægð en árið 2021 voru aðeins 99.540 tonn veidd á heimsvísu en meðalafli á heimsvísu frá 1950-2021 eru 396.113 tonn á ári samkvæmt gagnagrunni FAO.
Aflahæsta veiðiárið var árið 1968 en þá voru 758.600 tonn veidd af tegundinni (FAO, 2021). Neysla á Japönskum flugsmokkfisk er mikil í Japan og Kína. Tegundin er vinsæl í sushigerð sem er stór hluti af mataræði íbúa beggja landa. Það er einnig mikil eftirspurn eftir tegundinni í öðrum löndum eins og Bandaríkjunum og þar af leiðandi er tegundin mjög mikilvæg útflutningsvara fyrir löndin sem veiða hana (Squid-world, e.d.). Tegundin tilheyrir miðlungs verðflokki (SeaLifeBase, e.d.). Veiðar á Japanska flugsmokkfisknum ná hámarki fyrstu þrjá mánuði ársins frá janúar-mars en vegna mikillar eftirspurnar er tegundin veidd meirihluta ársins (Squid-world, e.d.). Japanski flugsmokkfiskurinn er ekki einungis veiddur til neyslu heldur einnig til notkunar sem beita (Marinebio, e.d.).
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]AquaMaps. (2019, október). Computer generated distribution maps for Todarodes pacificus (Japanese flying squid), with modelled year 2050 native range map based on IPCC RCP8.5 emissions scenario. https://www.aquamaps.org
European Comission. (e.d.). Todarodes pacificus. https://fish-commercial-names.ec.europa.eu/fish-names/species/todarodes-pacificus_en
FAO. (2021). Fishery and Aquaculture Statistics. [Global capture
production 1950-2019] (FishStatJ). http://www.fao.org/fishery/statistics/software/FishStatJ/en
FAO. (2024). Todarodes pacificus (Steensturp, 1880). https://www.fao.org/fishery/en/aqspecies/3567/en
Marinebio. (e.d.). Japanese Flying Squid. https://www.marinebio.org/species/japanese-flying-squid/todarodes-pacificus/
SeaLifeBase. (e.d.). Todarodes pacificus (Steensturp, 1880). https://www.sealifebase.se/summary/todarodes-pacificus.html
Squid-world. (e.d.). Japanese Flying Squid. https://www.squid-world.com/japanese-flying-squid/