Fara í innihald

Jean-Jacques Dessalines

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jacques 1. af Haítí)
Mynd af Dessalines eftir Louis Renaud.

Jean-Jacques Dessalines (20. september 1758 – 17. október 1806) var einn af leiðtogum haítísku byltingarinnar og fyrsti þjóðarleiðtogi Haítí sem sjálfstæðs ríkis. Eftir að hafa sett nýja stjórnarskrá árið 1805 ríkti Dessalines í fyrstu sem landstjóri en tók sér síðar keisaratign undir nafninu Jakob 1. af Haítí (1804–1806). Dessalines er talinn einn stofnfeðra Haítí.[1]

Dessalines var herliði í franska hernum á nýlendunni Saint-Domingue þegar Bretar og Spánverjar gerðu innrás. Hann varð síðar liðsforingi í uppreisninni gegn Frökkum. Sem helsti liðsforingi Toussaints Louverture vann Dessalines marga sigra, þar á meðal í orrustu við Crête-à-Pierrot.

Eftir að Toussaint Louverture var svikinn og handsamaður árið 1802 gerðist Dessalines foringi byltingarmannanna. Hann sigraði her Frakka í orrustu við Vertières árið 1803 og lýsti næsta ár yfir sjálfstæði og fullveldi Haítí. Dessalines var í kjölfarið kjörinn landstjóri af nefnd haítískra herforingja. Hann fyrirskipaði árið 1804 fjöldamorð á hvítum minnihlutahóp í Haítí og varð þar valdur að dauða á milli 3.000 til 5.000 manns frá febrúar til apríl 1804.[2] Í september sama ár lýsti Dessalines sjálfan sig keisara Haítí og ríkti sem slíkur þar til hann var myrtur árið 1806.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Independent Haiti“. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. maí 2023. Sótt 11. október 2017.
  2. Philippe R. Girard (2011). The Slaves Who Defeated Napoleon: Toussaint Louverture and the Haitian War of Independence 1801–1804. Tuscaloosa, Alabama: University of Alabama Press.
  3. „Slave Revolt in St. Domingue“. Fsmitha.com.