Fara í innihald

Jónas Guðmundsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jónas Guðmundsson (11. júní 1898 – 4. júlí 1973) var íslenskur stjórnmálamaður, embættismaður og blaðaútgefandi. Hann var meðlimur í Alþýðuflokknum og sat á Alþingi fyrir flokkinn frá 1934 til 1937.

Jónas hætti að eigin sögn í Alþýðuflokknum árið 1942 vegna óánægju með að flokkurinn hefði ekki útilokað samstarf við kommúnista og hætti á svipuðum tíma virkri þátttöku í stjórnmálum.[1] Hann hélt engu að síður áfram að gegna ýmsum ábyrgðarstöðum á vegum flokksins og í íslenskri stjórnsýslu, meðal annars sem skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 1946 til 1953.[2]

Jónas stóð árið 1951 fyrir því að Gjörðabækur öldunga Zíons, eitt af höfuðverkum alþjóðlegs Gyðingahaturs, var þýtt og gefið út á íslensku, undir titlinum Samsærisáætlunin mikla : siðareglur Zíonsöldunga. Ritið er falstexti sem á að vera samantekt á áætlunum samsærismanna úr röðum Gyðinga til að ná heimsyfirráðum. Jónas ritaði jafnframt formála og eftirmála að bókinni og birti valda kafla úr þýðingunni í tímariti sínu, Dagrenningu.[3] Samtímamenn Jónasar gagnrýndu útgáfu verksins og bentu á að sýnt hefði verið fram á fyrir löngu að texti ritsins væri falsaður[4] en Jónas hafnaði því að um væri að ræða fölsun og kvað bókina vera ósvikna samantekt sem hefði verið rituð á seinni hluta 18. aldar.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Ég vil heldur vera „pýramídaspámaður" en opinber starfsmaður“. Morgunblaðið. 11. júní 1958. bls. 9; 19.
  2. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (8. september 2016). „Krati og gyðingahatari“. fornleifur.blog.is. Sótt 21. apríl 2024.
  3. Jónas Guðmundsson (1951). „Siðareglur Zionsöldunga“. Dagrenning. bls. 33-44.
  4. „„Siðareglurnar". Norðurljósið. 1. maí 1951. bls. 18-19.
  5. Jónas Guðmundsson (1. júní 1951). „„Víða koma Hallgerði bitlingar". Dagrenning. bls. 19-22.