Fara í innihald

Iðnsemisbyltingin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu


Iðnsemisbyltingin er kenning sem lýsir tímabili í Evrópu, sem hófst snemma á 17. öld og stóð fram á 19. öld, þar sem framleiðni heimila jókst ásamt eftirspurn neytenda. Þó að tæknibreytingar iðnbyltingarinnar hafi ekki átt sér stað á þessum tíma, má sjá breytingar í vinnu- og neyslumynstri sem undanfara þeirra umbreytinga. Talsmenn iðnsemisbyltingarkenningarinnar halda því fram að aukinn vinnutími og einstaklingsneysla, sem oft eru tengd iðnbyltingunni, hafi í raun hafist fyrr og séu að miklu leyti afleiðing af breyttum neysluvenjum frekar en af efnahagslegri þvingun.[1]

Iðnsemisbyltingin var knúin áfram af viðskiptalegum hvötum, eins og breytingum á hlutfallsverði og lægri viðskiptakostnaði, auk þróaðs smekks neytenda sem þráðu fjölbreyttari vörur og þjónustu. Fræðimenn telja að þessi þróun hafi mótað nýtt neyslumynstur, þar sem heimilin fóru að taka meiri þátt í markaðshagkerfinu og auka kaup sín á vörum, án þess að stórvægilegar tæknibreytingar hefðu átt sér stað. Iðnsemisbyltingin markaði tímabil aukinnar neyslu og breytinga á framleiðslu heimila, sem lagði grunninn að nýjum efnahagslegum og samfélagslegum forsendum fyrir iðnbyltinguna..[2]

Munur á iðnsemisbyltingunni og iðnbyltingunni

[breyta | breyta frumkóða]

Iðnbyltingin er skyld hugtak en lýsir ólíkum aðstæðum. Hún er talin vera afleiðing aukins peningamagns, batnandi uppskeru og nýrrar tækni, sem leiddi til þróunar í átt að verksmiðjum og fjöldaframleiðslu. Á 16. öld leiddi prentbyltingin til aukinnar menntunar og kunnáttu, og lagði þar með grunninn að iðnbyltingunni í Evrópu.

Kenningin um iðnsemisbyltinguna segir hins vegar að það hafi verið vaxandi eftirspurn neytenda eftir vörum og þjónustu, fremur en framboð nýrrar tækni, sem hafi leitt til iðnvæðingarinnar. Á meðan iðnbyltingin snerist um tækninýjungar og aukið framboð, þá fjallaði iðnsemisbyltingin meira um neytendahvata og eftirspurn. Þar sem eftirspurnin jókst hraðar en framboðið á þessum tíma, leiddi hún til aukinnar framleiðni í landbúnaði og iðnaði til að mæta þörfum heimila. Munurinn á þessum tveimur byltingum er því að iðnsemisbyltingin snerist að mestu um eftirspurn og neyslu, á meðan iðnbyltingin snerist um tæknilega nýsköpun og framboð. [1]

Álit fræðimanna

[breyta | breyta frumkóða]

Hugtakið “iðnsemisbylting" var fyrst notað af japanska lýðsagnfræðingnum Akira Hayami til að lýsa þróun á Tokugawa tímabilinu í Japan (1603–1868). Á meðan iðnsemisbyltingin er almennt talin hafa verið undanfari iðnbyltingarinnar, greinir fræðimönnum á um nákvæma tímasetningu hennar og eðli. Helstu fræðimenn á þessu sviði eru Jan de Vries og Joachim Voth, en kenningar þeirra um iðnsemisbyltinguna eru töluvert ólíkar.[3]

Kenningar Jan de Vries

[breyta | breyta frumkóða]

Jan de Vries, hagsagnfræðingur, heldur því fram að iðnsemisbyltingin hafi átt sér stað í Englandi á 17. öld og verið undanfari iðnbyltingarinnar. Hann skilgreinir iðnsemisbyltinguna sem aukningu á vinnuframlagi fjölskyldna sem þróaðist samhliða fjölgun neysluvara á markaði. De Vries telur að iðnsemisbyltingin hafi verið skipt í tvö meginþrep:

1. Skerðing á frítíma – þar sem mikilvægi peningatekna jókst, völdu fjölskyldur að vinna meira til að mæta aukinni eftirspurn eftir neysluvörum.

2. Breyting á vinnuframlagi – þar sem áherslan færðist frá heimilisframleiðslu á vörum og þjónustu yfir í tekjuöflun á markaði.

Samkvæmt de Vries lagði iðnsemisbyltingin grunninn að þeirri samfélags- og efnahagsþróun sem síðar leiddi til iðnbyltingarinnar.[3]

Kenningar Joachim Voth

[breyta | breyta frumkóða]

Joachim Voth, hagsagnfræðingur, hefur sett fram kenningu um iðnsemisbyltinguna og staðsetur hana síðar í sögunni en margir aðrir fræðimenn. Voth tímasetur iðnsemisbyltinguna seint á 18. öld í London og hefur rannsakað þróun vinnutíma á þessum tíma til að styðja kenningu sína. Með því að greina dómsskýrslur og önnur gögn frá árunum 1760 til 1800 hefur Voth komist að þeirri niðurstöðu að vinnutími hafi lengst verulega á þessu tímabili, sem hann telur vísbendingu um iðnsemisbyltingu.

Samkvæmt Voth hófst iðnsemisbyltingin aðeins áður en iðnbyltingin náði hámarki, þar sem vinnuframlag fjölskyldna og einstaklinga jókst verulega. Hann heldur því fram að þessi aukna iðjusemi hafi verið undanfari iðnbyltingarinnar og hafi lagt grunninn að aukinni framleiðslu og nýtingu vinnuafls á markaði. Rannsóknir hans benda til þess að þróunin hafi einkum verið drifin áfram af aukinni eftirspurn eftir vinnuafli í borgum, sérstaklega í London, þar sem efnahagsleg tækifæri og markaðsdrifin neysla juku á vinnuþörf heimila.[4]

Kenningar Akira Hayami

[breyta | breyta frumkóða]

Akira Hayami var fyrstur til að nota hugtakið “iðnsemisbylting" í fræðilegri umræðu í japönsku riti árið 1967. Hayami skilgreindi iðnsemisbyltinguna á annan hátt en evrópskir fræðimenn á borð við de Vries, og taldi hana ekki tengjast iðnbyltingunni beint. Hayami leit frekar á iðnsemisbyltinguna sem sjálfstætt ferli sem þróaðist í Japan á Tokugawa tímabilinu, þar sem samfélagið upplifði bæði tímabil aukinnar iðnsemi og tímabil þegar iðnsemin dróst saman. [1]

Kenningarnar um iðnsemisbyltinguna eru fjölbreyttar og byggja á ólíkum sögulegum og menningarlegum forsendum. De Vries og Voth líta á iðnsemisbyltinguna sem undanfara iðnbyltingarinnar í Evrópu, en tímasetja hana sitt hvoru megin við 18. öldina. Hayami lítur aftur á móti á iðnsemisbyltinguna sem sérstakt ferli í Japan og aðskilur hana frá iðnbyltingunni. Hugtakið er þannig margþætt og lýsir ýmsum félagslegum og efnahagslegum breytingum sem voru grundvöllur iðnvæðingar og markaðsbreytinga á ýmsum stöðum í heiminum.[1]

Breytingar á neysluvenjum og framboði á vinnuafli

[breyta | breyta frumkóða]

Iðnsemisbyltingin var tímabil grundvallarbreytinga á heimilum, þar sem vinnuframlag og neysluvenjur þróuðust með það að markmiði að hámarka framleiðslu og neyslu á markaðsafurðum. Í kjölfar þessa þróunar færðust heimili frá sjálfsþurftarbúskap yfir í að kaupa fleiri vörur og þjónustu af markaði. Þessi þróun lagði grunninn að iðnbyltingunni og leiddi til mikilla breytinga á vinnumarkaði og neyslumynstri heimila.[2]

Hugmyndafræðin á bak við iðnsemisbyltinguna byggir meðal annars á kenningum Gary Beckers um tímanýtingu innan heimila, þar sem áhersla er lögð á ákvarðanir varðandi ráðstöfun takmarkaðra auðlinda, einkum tíma, með það að markmiði að hámarka nytjar. Becker lagði fram jöfnu til að lýsa framleiðsluferli heimila, þar sem heimili sameinar keyptar vörur frá markaðnum með eigin vinnuframlagi og auðlindum til að framleiða nytjahluti, svokallaðar Z-vörur:

þar sem:

- Z  táknar þá nytjavöru eða þjónustu sem heimili framleiðir og neytir,

- X eru markaðsvörur, þ.e. þær vörur og þjónusta sem heimili kaupir á markaði,

- T  táknar þann tíma sem heimilið ver í að framleiða eða undirbúa vöruna til eigin neyslu.

Beckers jafna lýsir þannig hvernig heimili hámarka nytjar með því að samræma fjárhagslegar auðlindir sínar og tíma.[2]

Á tímabilinu færðu heimilin sig frá sjálfsþurftarbúskap yfir í markaðsdrifna neyslu og breyttu þar með efnahag sínum. Keyptar vörur úr markaðinum kröfðust mismikillar heimilisvinnu áður en þær voru tilbúnar til neyslu. Vörur eins og te kröfðust lítillar vinnu, á meðan annað, eins og kind sem heimili ræktaði og breytti í fatnað, krafðist mikils vinnuframlags. Með því að kaupa meira af tilbúnum vörum frá markaðinum varð framleiðsluþáttur heimila minni, sem stuðlaði að aukinni sérhæfingu vinnuafls og hraðari iðnvæðingu.Virðisaukinn sem heimilin framleiddu minnkaði því meira sem vörurnar voru tilbúnar frá markaðnum. Til dæmis gátu heimili valið að framleiða fatnað úr eigin efnum eða að kaupa tilbúin föt frá klæðskerum. Á þessum tímum urðu heimilin að taka ákvörðun um hvernig þau dreifðu vinnuframlagi og fjármagni sínu til framleiðslu eða kaup á Z-vörum.[2]

Þróun efnahags heimilanna var einnig undir áhrifum af breytingum á smekk og hlutfallslegum verðum. Smekksbreytingar höfðu áhrif á samsetningu Z-vöru, en framboðsbreytingar höfðu áhrif á hlutfallsverð og þar með eftirspurn eftir markaðsafurðum. Innan hagkerfis heimilanna hafði þessi eftirspurn bein áhrif á ráðstöfun framleiðsluauðlinda, einkum tíma, milli heimaframleiðslu á Z-vörum og tekjuöflunar á markaði.[2]

Með aukinni eftirspurn eftir frítíma, sem hvorki fór í tekjuöflun né undirbúning neyslu, mátti greina skýr skil í þróun heimila frá framleiðslueiningum yfir í neyslueiningar. Sérstaklega í samanburði við sjálfsþurftarbúskap fyrri tíma bændasamfélaga, varð neysla aðaláhersla nútíma heimila. Þetta nýja fyrirkomulag lagði grunninn að vaxandi sérhæfingu vinnuafls og aukinni markaðsvæðingu, sem á endanum stuðlaði að hraðari iðnvæðingu í Evrópu og víðar.[2]

Rannsókn á Iðnsemisbyltingu í Englandi

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsókn sem gerð var á Englandi til að skoða hvort iðnsemisbylting hafi átt sér stað fyrir iðnbyltinguna, leiddi í ljós mikilvægi þess að greina á milli mismunandi hópa verkamanna við athugun á vinnuþátttöku og neyslumynstri frá tímabilinu 1300 til 1830. Rannsóknin sýndi að „iðnsemisbylting“ virðist hafa átt sér stað meðal sveitaverkamanna, en hún var fyrst og fremst drifin áfram af efnahagslegri neyð frekar en af aukinni eftirspurn eftir neysluvörum eða almennri neyslubyltingu.[5]

Sveitaverkamenn og vinnuframboð

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar var aukin vinna sveitaverkamanna fyrst og fremst til að tryggja lágmarksframfærslu fjölskyldna þeirra, sérstaklega eftir að fjölskylduábyrgðir jukust á tímabilinu eftir 1750. Þetta á við bæði um vinnuframlag kvenna og barna innan sveitanna, þar sem vinnuframlag þeirra var mikilvægt til að mæta lágmarksþörfum heimilanna. Sveitaverkamenn virðast jafnframt hafa haft „afturbeygða vinnuframboðsferil,“ sem þýðir að þeir unnu minna þegar tekjur þeirra hækkuðu, og því voru þeir ólíklegri til að taka þátt í neyslubyltingu.[5]

Borgarverkamenn og iðnsemisbyltingin

[breyta | breyta frumkóða]

Aftur á móti sýndu betur settir borgarverkamenn, á árunum 1600 til 1750, merki um aukna iðjusemi sem ekki tengdist efnahagslegri neyð. Þessir verkamenn gátu því frekar tekið þátt í neyslubyltingu á þessum tíma, þar sem þeir unnu meira og höfðu betri fjárhagslega möguleika til að kaupa neysluvörur.[5]

Niðurstaða og áhrif

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknin bendir til þess að áætlanir um vinnuár sveitaverkamanna frá síðmiðöldum fram á iðnbyltingu gætu gefið vísbendingar um raunverulegan vinnutíma þeirra. Sveitaverkamenn unnu aðallega til að mæta lágmarksframfærsluþörfum, á meðan borgarverkamenn sýndu fram á aukna iðjusemi, sem var ekki drifin áfram af neyð heldur af möguleikanum á aukinni neyslu. Þessar niðurstöður gefa til kynna að ólíkir hópar samfélagsins hafi upplifað og tekið þátt í þróun iðnsemisbyltingarinnar með mismunandi hætti.[5]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Industrious Revolution“, Wikipedia (enska), 20. júlí 2024, sótt 20. september 2024
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 De Vries, Jan (1994). The Industrial Revolution and the Industrious Revolution. Journal of Economic History. bls. 54 (2): 249–270.
  3. 3,0 3,1 Clark, Gregory; Van Der Werf, Ysbrand (1998). "Work in Progress? The Industrious Revolution. The Journal of Economic History. bls. 58 (3): 830–843.
  4. Voth, Joachim (2000). Time and Work in England 1750-1830. Oxford University Press.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 Allen, R. C; Weisdorf, J. L (2011). Was there an 'industrious revolution' before the industrial revolution? An empirical exercise for England, c. 1300–1830. The Economic History Review. bls. 64 (3): 715–729.