Hringtorg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Hringtorg með hægri umferð og því er hér ekið rangsælis um umferðareyjuna.

Hringtorg er viss tegund af gatnamótum sem felst í því að umferð andstæðra gatna er beint í kringum hringlaga torg (umferðareyju). Hringtorg eru margvísleg og eru til með einni akrein, tveimur eða jafnvel fleirum.[1] Umferðarreglur á Íslandi kveða á um að umferð í hringtorgi eigi réttinn en sé hringtorgið tvíbreitt þá á innri akreinin réttinn. Hringtorg í sinni núverandi mynd voru stöðluð á Bretlandi eftir reynslu á notkun þeirra í Bandaríkjunum en eru núna algeng víða um heim.

Upphaf hringtorga[breyta | breyta frumkóða]

Orðið hringtorg (e. roundabout) á rætur að rekja til upphafs 20. aldarinnar.[1] Í Bandaríkjunum er hugtakið traffic circle notað um gatnamót sem stjórnað er af stöðvunarskyldu, umferðarljósum eða hægri rétti á meðan roundabout er notað sérstaklega um það sem við þekkjum sem hringtorg.[2]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta hringtorgið í heimi var byggt í Letchworth Garden City árið 1903 í Bretlandi. Upprunalega átti hringtorgið einnig að vera umferðareyja fyrir gangandi vegfarendur.[3][4] Í byrjun 20. aldarinnar voru ýmis hringlaga gatnamót byggð í Bandaríkjunum, sérstaklega í Norð-Austur fylkjunum. Mörg dæmi eru um hringlaga gatnamót eldri en nútíma hringtorg í Bandaríkjunum, til dæmis má nefna þær sem finnast í bænum Atherton í Kaliforníu.[5] Notkun nútíma hringtorga fór að breiðast út á 7. áratugnum þegar settar voru reglur um gerð þeirra til að auka öryggi og til að gera umferð skilvirkari.[6] Öll ný hringtorg í Bretlandi fylgdu þessum reglum frá Nóvember 1966. Helsti munurinn á hringtorgunum og hinum gömlu hringlaga gatnamótum var sá að í hringtorgum hafa bílar sem þegar eru í hringtorginu og þeir sem ætla út úr hringtorginu forgang á komandi umferð. Á gömlu hringlaga gatnamótunum höfðu oft verið sett umferðarljós en það þótti valda ruglingi og miklum biðum og því var hætt að nota þau. Hringtorg voru ekki eins vinsæl í Bandaríkjunum og fóru ekki að sjást að neinu ráði fyrr en á tíunda áratugnum. Árið 2011 voru um það bil 3000 hringtorg í Bandaríkunum og þeim fjölgar stöðugt.[7][8] Fyrsta nútíma hringtorg Bandaríkjanna var byggt árið 1990 í Summerlin í Nevada fylki. Hringtorginu var ekki tekið vel af íbúum á svæðinu.[9] Hringtorg eru mun algengari í Evrópu. Til dæmis hafði Frakkland yfir 30,000 hringtorg árið 2010.[10]

Hringtorg á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Akstur[breyta | breyta frumkóða]

Á vel hönnuðu hringtorgi (e. roundabout) er auðvelt að aka. Meginreglan er sú að sá sem ætlar að beygja út úr torginu á fyrstu gatnamótum, skal undantekningarlaust vera á hægri akrein, það er að segja á ytri akreininni í hringtorginu. Þá er mælt með því að sá sem ætlar að aka framhjá fyrstu gatnamótunum og fara út á öðrum gatnamótum sé alla jafnan einnig á ytri akreininni, þótt ekkert banni honum að fara í innri hring. Ætli ökumenn hins vegar að beygja út úr hringtorgi á þriðju eða fjórðu gatnamótum, skulu þeir fara í innri hring. Ekkert bannar þeim þó að aka í ytri hring, en í mikilli umferð má búast við að þeir valdi truflun og óþægindum fyrir aðra ökumenn haldi þeir sig í ytri akrein fram hjá svo mörgum gatnamótum. Aldrei má skipta um akrein í hringtorgi og á Íslandi er reglan sú að umferð á hringtorgi hefur ávallt forgang fyrir þeim sem eru að aka inn í það.[11][12]

Hringtorg á Íslandi lúta ekki sömu akstursreglum og í öðrum löndum. Réttur á innri hring umfram ytri er aðeins til á Íslandi. Útlendingar á ferð hérlendis, sem aka um tveggja akreina hringtorg, þekkja yfirleitt ekki „íslensku regluna“.[13]

Öryggi[breyta | breyta frumkóða]

Aðalkostir hringtorga í samanburði við aðrar gerðir gatnamóta er að umferðarhraði á hringtorgum er jafnari og minni en á ljósastýrðum vegamótum þar sem að öll ökutæki sem koma að hringtorgi þurfa að hægja á sér til að veita þeim ökutækjum sem eru inni í torginu forgang. Einnig er búið að skipta vinstri- og U-beygjum út fyrir hægribeygjur og því er ákvarðanataka ökumanna auðveldari í hringtorgum. Í hringtorgum eru einnig færri staðir en í öðrum gerðum gatnamóta þar sem umferðarstraumar ökutækja, hjólreiðamanna og gangandi vegfaranda skerast, koma saman eða greinast. Þessir staðir eru kallaðir bágapunktar.

Töluverður munur er á óhöppum sem gerast á ljósastýrðum vegamótum og í hringtorgum. Á ljósastýrðum gatnamótum er algengast að óhöpp gerist í tengslum við vinstribeygjur eða þegar tvö ökutæki skella hornrétt saman. Aftur á móti eru fyrrnefndu tegundir óhappa ekki til staðar í hringtorgum. Á hringtorgum eru flest óhöpp hliðarárekstrar sem verða á milli ökutækja sem stefna nokkurn veginn í sömu átt og eru nánast á sama hraða. Þessi óhöpp eru að jafnaði ekki eins alvarleg og óhöpp á öðrum gerðum gatnamóta, í flestum tilfella er um eignatjón að ræða.

Árið 2003 var birt rannsókn [13] á umferðaröryggi hringtorga á Íslandi. Í henni kemur fram að flest umferðaróhöpp sem gerast í hringtorgum voru af sama toga og tíðkast erlendis. Þar tíðkast að flest óhöpp gerist þegar ökutæki aka inn í hringtorg á önnur ökutæki í hringtorginu eða þegar ekið er á kyrrstætt ökutæki. Í rannsókninni kemur einnig fram að skoðuð voru óhöpp á 11 hringtorgum í Reykjavík, alls 491 umferðaróhöpp. Af þeim var 471 umferðaróhapp með eignartjóni, 13 óhöpp með minniháttar meiðslum, 6 óhöpp með meiriháttar meiðslum og eitt dauðaslys. Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir þ.e.a.s. að þau óhöpp sem verða á hringtorgum eru oftast ekki alvarleg.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]