Hjálp:Leit

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Wikipedia hefur innbyggða leitarvél sem nota má til þess að finna efni á vefnum. Leitarramminn er efst til hægri á síðunni hjá þeim notendum sem nota sjálfgefið útlit vefsins (eða í hliðarstikunni vinstra meginn í flestum öðrum útlitssniðum). Ef leitarorðið þitt stemmir nákvæmlega við titil greinar eða tilvísunar þá opnar vefurinn þá grein eða greinina sem tilvísunin bendir á. Ef leitarorðið passar ekki nákvæmlega við neinn greinartitil þá opnast hins vegar listi yfir leitarniðurstöður þar sem þær greinar eru skráðar sem innihalda leitarorðið í titli sínum eða meginmáli. Ef þú vilt sjá þessar niðurstöður frekar en að fara beint í samnefnda grein þá getur þú valið „sem innihalda...“ möguleikann sem birtist ávallt neðst í fellilistanum sem kemur neðan leitarrammans þegar skrifað er í hann.

Niðurstöðusíðan býður upp á ítarlegri leitarmöguleika og því getur verið þægilegt að fara þangað til að framkvæma leit frekar en að skrifa leitarorð í rammann. Fljótlegasta leiðin til þess er að velja leitarramann og ýta á „enter“ án þess að gefa upp leitarorð eða smella á stækkunarglerið með tómum leitarramma.

Sjálfgefið er að leita aðeins í síðum sem eru í aðalnafnarými Wikipediu, það er að segja alfræðigreinum, aðgreiningarsíðum og tilvísunum, en því má breyta með því að fara í ítarlegri leitarkosti með þeim aðferðum sem lýst var hér að ofan og velja þar t.d. „Hjálpar- og verkefnasíður“ ef þú vilt leita í síðum sem varða notendahjálp og samfélagið á bak við Wikipediu fremur en í greinunum sjálfum. Þú getur einnig valið „nánar“ og fengið þá upp heildarlista yfir nafnarými á Wikipediu og valið nákvæmlega í hverjum þeirra þú vilt leita og hverjum ekki. Þannig er til dæmis hægt að leita sérstaklega í flokkum eða margmiðlunarefni (athugaðu að myndaleit á íslensku Wikipediu leitar í raun í hinum gríðarstóra margmiðlunargrunni Wikimedia Commons).

Það er einnig hægt að leita í öðrum nafnarýmum en aðalrýminu án þess að fara fyrst á ítarleitarsíðuna með því að skrifa forskeyti nafnarýmisins og tvípunkt á undan leitarorðinu. Ef þú leitar til dæmis að „wikipedia:hegðun“ þá færðu niðurstöðusíðu með síðum í Wikipedia-nafnarýminu þar sem orðið „hegðun“ kemur fyrir.

Leitarmöguleikar[breyta | breyta frumkóða]

Hægt er að þrengja leitina með tilteknum leitarmöguleikum:

  • Setning innan gæsalappa - Hægt er að leita að heilli setningu eða setningarbút með því að setja gæsalappir utan um. Ekki skiptir máli hvaða afbrigði gæsalappa er notað hér.
  • Boolísk leit - Eins og flestar stórar leitarvélar þá býður leitin á Wikipediu upp á notkun skilyrðinga eins og AND og OR. AND er sjálfgefið er þegar slegin eru inn tvö eða fleiri leitarorð. Það þýðir að sýndar eru niðurstöður þar sem bæði eða öll leitarorðin koma fyrir. Með OR er hægt að leita eftir niðurstöðum þar sem eitthvert leitarorðanna kemur fyrir. Svigar utan um tvö eða fleiri leitarorð jafngilda því að nota OR.
  • Útilokun - Með því að nota mínus (-) á undan leitarorði má útiloka það frá leitarniðurstöðunum.
  • Algildisstafir - Stjarna (*) stendur fyrir algildisstaf sem getur staðið fyrir hvað sem er. Leit að „*stan“ gefur til dæmis öll lönd sem enda á -stan eins og Afganistan og Kazakstan.
  • Loðin leit - Með því að bæta tildu (~) aftan á leitarorð er ekki aðeins leitað að leitarorðinu sjálfu eins og það var skrifað heldur einnig svipuðum orðum. Þú getur einnig sett tölu aftan við tilduna sem stendur fyrir fjöldann af orðum sem á að vera á milli leitarorðanna.
  • Komist hjá sjálfvirkri lendingu á síðu - Tilda fyrir framan leitarorð gerir það að verkum að leitin fer alltaf á niðurstöðusíðu fremur en beint á grein ef leitarorðið er orðréttur greinartitill.
  • intitle: - Leitar aðeins í síðutitlum. Leitarorðið eða orðin sem fylgja þessari skilyrðingu mega koma fyrir hvar sem er og í hvaða röð sem er í titlinum.
  • incategory: - Leitar aðeins í síðum í tilgreindum flokki. Dæmi: frumspeki incategory:Forngrískir_heimspekingar gefur þær síður í flokkinum forngrískir heimspekingar sem innihalda orðið frumspeki. Þessi skilyrðing gerir greinarmun á hástöfum og lágstöfum í nafni flokks (sem byrjar alltaf á hástaf) og krefst þess að bilum í nafni flokks sé skipt út fyrir _.
  • prefix: - Takmarkar leitina við síðutitla sem hefjast á þeim stöfum sem gefnir eru upp.
  • morelike: - Finnur greinar sem hafa svipaðan texta og grein með tilgreindum titli.
  • hastemplate: - Finnur greinar sem hafa ítengt ákveðið snið.
  • insource: - Leit að wikitexta. Þessi leit getur gefið upp gildi sniða, vefslóðir í tenglum og fleira þess háttar. Hægt er að nota þessa leit með reglulegum segðum, en það tekur dágóðann tíma að fá niðurstöður úr slíkri leit.

Vægi leitarniðurstaðna[breyta | breyta frumkóða]

Þrír þættir ráða því hversu ofarlega síða lendir í leitarniðurstöðum. Í fyrsta lagi, í einfaldri leit, þar sem fáir leitarmöguleikar eru notaðir, gefur leitin niðurstöðum þar sem leitarorðin koma fram sem setning hærra vægi. Í öðru lagi hefur texti sem er utan meginmáls minna vægi. Undir þessa skilgreiningu fellur innihald taflna, myndalýsingar, greinamerkingar o.s.frv. Í þriðja lagi fær texti frá upphafi síðunnar til fyrsta kafla (inngangurinn) hærra vægi en annar texti.

Þú getur haft áhrif á vægi leitarniðurstaðna með tveimur leitarmöguleikum:

  • prefer-recent - Gefur síðum sem hefur verið breytt nýlega aukið vægi.
  • boost-templates: - Gefur síðum sem hafa ákveðið snið ítengt aukið vægi.

Leit í farsímaútgáfu[breyta | breyta frumkóða]

Leit á farsíma. Hérna er leitarniðurstaðan „frog” valin.

Leitarraminn í farsímaútgáfu Wikipediu er efst á síðunni, fyrir miðju. Eftir því sem notandinn slær inn leitarorðið koma upp leitarniðurstöður sem stemma við greinartitla. Ef leitarorðið passar ekki nákvæmlega við neinn greinartitil getur notandinn ýtt á leitartakka á lyklaborðinu til að fá leitarniðurstöður sem innihalda leitarorðið í meginmáli greina. Ólíkt leitinni í einkatölvu útgáfunni (hefðbundri leit), virka engir af ofangreindum leitarmöguleikum.


Enn ítarlegri leiðbeiningar um leitarvél Wikipediu eru á enskri útgáfu þessarar síðu.