Henrik Krag
Henrik Krag (d. um 1613) var danskur maður sem var tvívegis höfuðsmaður (hirðstjóri) yfir Íslandi á 16. öld. Langur tími leið milli hirðstjóratímabila hans og ekki er alveg öruggt að um sama mann sé að ræða þótt svo sé oftast talið.
Hann var hálfbróðir Poul Stigsen Hvide (Páls Stígssonar), sem var höfuðsmaður frá 1560, og var móðir þeirra Else Mogensdatter Stampe af Klarupgaard en faðir Henriks var Niels Eriksen Krag. Henrik Krag var eitthvað á Íslandi með bróður sínum og er kallaður fógeti í Vestfirðingafjórðungi í dómi 1565.
Vorið 1566 dó Páll á Bessastöðum og var Henrik samþykktur sem höfuðsmaður á Alþingi um sumarið. Hann fór svo utan um sumarið og kom aftur árið eftir og hafði þá fengið hirðstjórnarvöld hjá konungi. Hann virðist hafa verið fremur vinsæll og vel þokkaður og þótti ekki ganga hart eftir landsmönnum með skatta og aðrar greiðslur sem þeir áttu að gjalda. Hann var heldur ekki lengi í embætti að þessu sinni og Christoffer Valkendorf var skipaður í hans stað 1569.
Rúmum tuttugu árum síðar, 28. febrúar 1591, var Henrik Krag aftur skipaður hirðstjóri á Íslandi. Þá lét hann meira til sín taka og kom á ýmsum breytingum sem margar þóttu til bóta. Jón Halldórsson í Hítardal segir í Hirðstjóraannál að Krag hafi verið einn af þeim hinum nytsamlegustu hirðstjórum og Páll Eggert Ólason segir í ritinu Menn og menntir að óvíst sé hvort „nokkur höfuðsmaður á þessu tímabili hafi viljað landsmönnum betur bæði í tillögum og verki, það er hann mátti“.
Krag dvaldi á Íslandi mestalla seinni hirðstjóratíð sína, fór reyndar utan haustið 1593 en var kominn aftur fyrir Alþingi árið eftir. Hann lét af embætti 1595 en lifði í nærri tvo áratugi eftir það, var enn á lífi 22. október 1612 en dáinn fyrir 29. janúar 1614.
Kona Henriks var Kristen Nielsdatter Munk og áttu þau nokkur börn.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
- „Lögberg og lögrjetta. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 48. árgangur 1941-1942“.
- „Ættfræðiupplýsingar á www.finnholbek.dk, skoðað 8. febrúar 2011“.
Fyrirrennari: Poul Stigsen Hvide |
|
Eftirmaður: Christoffer Valkendorf | |||
Fyrirrennari: Lauritz Tygesen Kruse |
|
Eftirmaður: Brostrup Giedde |