Henri Christophe
Henri Christophe (6. október 1767 – 8. október 1820) var einn af leiðtogum haítísku byltingarinnar, sem tókst að vinna sjálfstæði Haítí frá Frakklandi árið 1804. Hann var kominn af Bambara-fólki og hugsanlega Ibo-þjóðflokknum.[1] Árið 1805 tókst honum undir leiðsögn Jean-Jacques Dessalines að hertaka Santo Domingo (sem er í dag Dóminíska lýðveldið) frá frönskum hermönnum sem höfðu fengið svæðið í friðarsáttmála við Spánverja.
Eftir að Dessalines var myrtur flúði Christophe til norðurhluta eyjarinnar og stofnaði nýja ríkisstjórn. Þann 17. febrúar 1807 var hann kjörinn forseti Haítíska ríkisins. Á sama tíma var Alexandre Pétion kjörinn forseti sinnar eigin stjórnar í suðurhlutanum. Þann 26. mars 1811 setti Christophe á fót konungsríki á norðurhluta eyjarinnar og lýsti sjálfan sig Hinrik 1. konung Haítí. Hann stofnaði einnig aðalskerfi og lýsti son sinn, Jacques-Victor Henry, krónprins Haítí og arftaka sinn.
Christophe er þekktur fyrir að byggja Henri-virkið (sem heitir í dag Citadelle Laferrière), Sans-Sousi-höllina („Áhyggjulausu höllina“) og ýmis önnur mannvirki. Konungsríki Christophe notfærði sér nauðungarvinnu og rak efnahagskerfi sitt með plantekrubúskap, aðallega á sykri. Haítíbúum var í nöp við harðstjórnarkerfið sem Christophe hafði komið á. Christophe gerði samning við Bretland þess efnis um að Haítí myndi ekki skipta sér af nýlendum Breta á Karíbahafi ef Bretar lofuðu að vara Haítíbúa við ferðum franska flotans nærri Haítí. Undir lokin var Christophe óvinsæll og veikburða og óttaðist að sér yrði brátt steypt af stóli. Hann framdi því sjálfsmorð þann 8. október 1820. Sonur hans var myrtur 10 dögum síðar. Hershöfðinginn Jean-Pierre Boyer tók við völdum og sameinaði á ný norður- og suðurhluta Haítí.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Konungurinn á Haítí“ – Fálkinn, 22. Tölublað (02.06.1939), Blaðsíða 4
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Mollien, Gaspard Théodore, Comte de (2006). Haïti ou Saint-Domingue, Vol 2. Paris: L'Harmattan. bls. 63.