Haraldur Bilson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Haraldur M. Bilson, oftast ritað Harry Bilson (f. 21. janúar 1948) er íslensk/enskur listmálari. Haraldur fæddist í Reykjavík árið 1948 í húsi ömmu sinnar á horni Barónsstígs og Laugavegar. Móðir hans, Kristjana Jónsdóttir starfaði þá á kaffistofu ömmu hans, Jónu Helgu Valdimarsdóttur. Faðir Haraldar var breskur hermaður sem vandi komur sínar á veitingastofuna, Jack William Bilson að nafni.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Haraldur er að mestu sjálfmenntaður en hann stundaði um tíma myndlistarnám í St. Martin í London. Þar líkaði Haraldi ekki dvölin og hætti fljótlega. Haraldur málar aðallega með akríl, vatnslitum og olíu en hann er einnig fær teiknari. Þegar hann flutti ásamt móður sinni til London talaði Haraldur ekki ensku en kennararnir í barnaskólanum áttuðu sig á hæfileikum drengsins í teikningu og málaralist. Þeir miðlar urðu hans samskiptamáti. Á þessum árum var mynd eftir hann send í myndlistarkeppni og hlaut hann verðlaun fyrir. Fyrstu myndina sem hann man eftir að hafa teiknað var fiskibátur og maður með veiðarfæri. Þá mynd teiknaði hann í Landakotsskóla.[1]

Haraldur bjó og starfaði lengst af í Bretlandi en hann hefur einnig búið í Frakklandi, Írlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og Hong Kong.[2]

Listsköpun[breyta | breyta frumkóða]

Um listsköpun sína segir Haraldur:

“My paintings are all something about no thing.”[3]

Í fjölmiðlum[breyta | breyta frumkóða]

Margir þekktir einstaklingar hafa átt myndir eftir Harald, Bob Hawke, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu var meðal vina Haraldar og átti hann að minnsta kosti 10 verk eftir Bilson. Málverkin urðu miðpunktur deilu erfingja Hawke við ekkju hans um skiptingu eigna við andlát hans 2020. Verkin voru boðin upp í Ástralíu án samþykkis barna hans og fóru fyrir metverð.[4]

Clint Eastwood keypti verk eftir Harald í galleríi í Carmel þar sem hann var bæjarstjóri. Einnig eiga leikkonan Zsa Zsa Gabor, leikarinn Jack Palance, sjónvarpskonan Ann Robinson og fyrrum liðsmaður og fyrirliði Chelsea, David Webb verk eftir Harald.[5]

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Haraldur var lengi í sambandi með Barböru Bilson og eiga þau saman tvö börn. Árið 1992 greindist Haraldur með heilaæxli sem var fjarlægt. Aðgerðin varð til þess að Haraldur mátti ekki fljúga í 6 mánuði og var hann búsettur í Perth í Ástralíu á meðan. Síðustu árin hefur Haraldur búið og málað víðs vegar um heiminn.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Morgunblaðið - Morgunblaðið C - Menning og listir (19.08.1995) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 3. desember 2022.
  2. „About“. www.bilsondirect.com. Sótt 3. desember 2022.
  3. „Morgunblaðið - Morgunblaðið I (25.01.2004) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 3. desember 2022.
  4. Gibbs, Stephen (22. ágúst 2020). „Bob Hawke officially left NOTHING to his three children in his will“. Mail Online. Sótt 3. desember 2022.
  5. „Fréttablaðið - 80. tölublað (24.04.2021) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 3. desember 2022.
  6. „Morgunblaðið - Morgunblaðið I (25.01.2004) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 3. desember 2022.