Haffjarðarey
Haffjarðarey (upprunalega nefnd Hafursfjarðarey) er stærsta eyjan af Hausthúsaeyjum í Eyjahreppi á Mýrum. Þar var sóknarkirkja Eyjahrepps sem helguð var heilögum Nikulási á katólskum tíma. Hún var þar fram til ársins 1563, en þá lagðist hún niður vegna þess að presturinn og margt sóknarfólk drukknaði á leið í land. Seinna fór að blása upp á eyjunni og sáust oft mannabein þar upp úr sandinum og var lengi vel verið að tína þau saman og flytja til kirkju.
Sumarið 1905 komu 12 bandarískir vísindamenn til landsins og höfðu fengið leyfi til að grafa upp mannabein þar sem uppblástur var í gömlum og aflögðum kirkjugörðum. Var för þessi farin í þágu mannfræðirannsókna og var Vilhjálmur Stefánsson, síðar landkönnuður í ferð með þeim. Þeir grófu aðallega í Haffjarðarey. [1] Talið er að þeir hafi tekið upp fimm hestburði af mannabeinum, og meðal þess voru 86 hauskúpur. Voru beinin fyrst flutt til Reykjavíkur og þaðan út með skipi og rannsökuð við Harvard háskóla. Leiðangurinn var farinn meðal annars til að kanna samband tannskemmda og át á kornmeti. Í bók sinni Bréf til Brands, segir Haraldur Bessason svo frá rannsóknum þessum:
- Einn af ævisöguriturum hans [Vilhjálms Stefánssonar], Earl Parkar Hanson, fullyrðir að þegar í ljós kom að ekki fannst ein einasta skemmd tönn í hauskúpunum 86 hafi áhugi Vilhjálms á sambandi mataræðis og heilsufars skyndilega kviknað, en um þau efni skrifaði hann langt mál síðar á ævinni. [2]
Beinasöfnuni þessi olli töluverðum deilum hér á landi, en svo segir í ævisögu Vilhjálms:
- Við vorum líkamsfræðilegir mannfræðingar, fengumst aðallega við beinarannsóknir, en landslög á Íslandi heimiluðu ekki, að tekið væri úr gröfum, jafnvel þótt það væri í lofsverðum visindalegum tilgangi. En á þessari smáeyju var grafreitur, sem sjórinn var smám saman að eyða og ekki voru neinar ráðstafanir um að hefta ágang sjávar. Prestur einn sagði okkur, að yfirvöldin mundu vafalaust leyfa okkur að hafa á brott með okkur hverja þá hauskúpu, sem sjórinn hafði skolað moldina ofan af. Auk þess hélt hann, að okkur mundi óhætt að opna tvær eða þrjár hinna gömlu grafa nærri sjónum, þar sem gera mátti ráð fyrir, að þær skoluðust brátt á brott. Við tókum til starfa á þessum grundvelli, og á um það bil tveim vikum höfðum við safn að nokkrum nær heilum beina grindum og samtals 86 hauskúpum, en flestar þeirra fundum við í briminu, sem skolaði þeim fram og aftur. Þegar við gengum um fjöruna dag nokkurn á útfalli, gátum við fyllt bolla með lausum tönnum.
Kristján Eldjárn og Jón Steffensen, prófessor, grófu síðan í garðinum á Haffjarðarey árið 1945 og tóku bein til rannsókna.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Haffjarðarey; af nat.is Geymt 22 júní 2008 í Wayback Machine