Fara í innihald

Gullna reyfið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gullna reyfið var hrútsreyfi úr gulli í grískri goðafræði. Þess gætti ógurlegur dreki en Jason, fyrirliði Argóarfara, náði því og flutti til Hellas.

Aþamant Eólsson, konungur Minýja í Orkomenos, átti við Nefele (= ský), konu sinni, tvö börn, soninn Frixos (= hið niðandi regn) og dótturina Hellu (= hið lifandi ljós). Er Aþamant sneri baki við Nefele og kvæntist Ino, steig Nefele til himins og sendi landi Minýja hræðilegan þurrk. Ino vildi Frixos feigan. Taldi hún því mann sinn á að fórna honum Seifi, til þess að guðinn sendi aftur regn. Nefele sendi þá börnum sínum hrút með gullreyfi, og varð systkinunum undankoma auðið á baki hrútsins. Á flóttanum steyptist Helle af baki í sjóinn í sund það, er síðan er við hana kennt og kallað Hellusund. Frixos komst til Pontos. Liggur land það fyrir austan Pontos Evxinos eða Svartahaf. Fórnaði hann Seifi hinum gullna hrút og hengdi reyfið upp í lundi einum. Hélt síðan dreki einn ógurlegur vörð um það. Þaðan flutti Jason gullreyfið til Hellas.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jón Gíslason, Goðafræði Grikkja og Rómverja