Guðný Helgadóttir (abbadís)
Guðný Helgadóttir (d. um 1368) var abbadís í Reynistaðarklaustri á 14. öld, á eftir Hallberu Þorsteinsdóttur, sem dó 1330. Raunar er ýmislegt óljóst um abbadísir á Reynistað á þessum tíma og einnig eru tilgreind nöfnin Kristín og Katrín á abbadísum sem sagðar eru hafa tekið við klaustrinu um þetta leyti. Líklegt er að þetta sé allt sama manneskjan og hafi Guðný tekið sér dýrlingsnafn, sennilega Kristín, þegar Egill Eyjólfsson biskup vígði hana 1332. Annars er fátt vitað um Guðnýju.
Á hennar tíma hófst deila um rekaítök á Skaga, svonefnda Ólafarparta, sem Benedikt Kolbeinsson á Auðkúlu, systursonur Hallberu abbadísar, hafði gefið klaustrinu með Ingibjörgu dóttur sinni þegar hún gekk í klaustrið. Egill Eyjólfsson biskup hafði gert þennan samning fyrir klaustrið en Björn Þorsteinsson ábóti á Þingeyrum vottað hann. Þó urðu út af þessu málaferli og runnu rekarnir á endanum til Hólastóls.
Ekki er alveg víst um dánarár Guðnýjar og eru árin 1367, 1368 og 1369 tilgreind í heimildum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „„Reynistaðarklaustur". Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.
- „„Reynistaðarklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 6. ágúst 1967“.
- Sigríður Gunnarsdóttir: Nunnuklaustrið að Reynistað. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga.