Fara í innihald

Grenivíkurskóli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grenivíkurskóli er grunnskóli Grenivíkur við Eyjafjörð.

Grenivíkurskóli er grunnskóli á Grenivík í Grýtubakkahreppi. Þar eru um 50 nemendur. Skólinn á rætur allt frá árinu 1892 en núverandi skólahúsnæði er frá árinu 1981.

Árið 2021 voru 48 nemendur í 1.—10. bekk við Grenivíkurskóla. Það ár voru 12,6 stöðugildi starfsmanna við skólann. Þar af voru um 10,4 stöðugildi kennarar.[1]

Rætur Grenivíkurskóla liggja allt til ársins 1892 en þá var farskóli starfandi í Grýtubakkahreppi. Skólahald var í „Gamla skólanum“ á Grenivík sem byggður var 1925, allt til ársins 1981 en þá var núverandi húsnæði tekið í notkun.[2] Árið 1991 var byggð sundlaug við skólann og árið 1994 reis nýtt íþróttahús.[3][4][5] Árið 2005 var síðan fimmhundruð fermetrar íþróttamiðstöð byggð við skólann.[6] Á árunum 1972–1984 sóttu elstu grunnskólanemar Grýtubakkahrepps nám í Stórutjarnarskóla í Ljósavatnsskarði, Þingeyjarsveit. Síðustu ár hefur nemendafjöldinn verið um 50 en um miðjan 9. áratuginn voru nemendur flestir eða um 100.[7]

Staðsetning

[breyta | breyta frumkóða]

Grenivíkurskóli er staðsettur við Túngötu 3, á Grenivík í Grýtubakkahreppi.

Skólastjóri Grenivíkurskóla (2023) er Þorgeir Rúnar Finnsson. Inga María Sigurbjörnsdóttir kennari er staðgengill skólastjóra.[8]

Nám og kennsla

[breyta | breyta frumkóða]

Grenivíkurskóli sem býður nám í 1.—10. bekk, er skóli án aðgreiningar. Einstaklingsnámskrár eru gerðar fyrir nemendur með sérþarfir í námi og þeir fá gögn og hjálpartæki til að þeir geti stundað sitt nám.[7]

Á vef skólans er nám og kennsla sagt skipulagt með hliðsjón af grunnþáttum menntunar sem eru læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru. Þannig læri börn og ungmenni að byggja sig upp andlega og líkamlega, og bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Áhersla er lögð á heilbrigði og velferð sem byggi bæði á líkamlegum og andlegum þáttum. Skólinn hefur innleitt Olweusaráætlun gegn einelti.[9]

Í ytra mati Menntamálastofnunar á Grenivíkurskóla frá árinu 2016 er þess sérstaklega getið að árangur nemenda hafi farið vaxandi og verið yfir landsmeðaltali.[7]

Skólabragur og hefðir

[breyta | breyta frumkóða]

Í ytra mati Menntamálastofnunar á Grenivíkurskóla eru jákvæð samskipti og gagnkvæm virðing sögð einkenna skólastarfið. Skólinn stefni að efldri sjálfsvitund, auknu sjálfstrausti og jákvæðari sjálfsmynd nemenda. Niðurstöður kannana meðal nemenda segja góðan skóla- og bekkjaranda ríkja. Bekkjarfundir eða gæðahringir séu haldnir vikulega. Rýnihópur nemenda segir þeim líði vel í skólanum, allir séu vinir og allir þekki alla. Nemendur segja lýðræði í skólanum og að allir séu jafnir. Fulltrúar nemenda í stjórn nemendafélagsins eru kosnir lýðræðislegri kosningu.[7]

Að mati kennara í rýnihópi liggur styrkur skólans í samheldni og jákvæðni, gleði og hjálpsemi. Foreldrar í rýnihóp segja skólastjóra leggja sig fram um að hafa góðan skólabrag.[7]

Einkunnarorð skólans eru: Hugur, hönd og heimabyggð.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Rekstur leik- og grunnskóla“. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sótt 8. ágúst 2023.
  2. „Dagur - 222. tölublað - HelgarDagur (20.11.1993) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. ágúst 2023.
  3. „Sveitarstjórnarmál - 1. tölublað (01.02.1991) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. ágúst 2023.
  4. „Dagur - 151. tölublað - HelgarDagur (13.08.1994) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. ágúst 2023.
  5. „Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 1. tölublað (01.01.1996) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. ágúst 2023.
  6. „Fréttablaðið - 317. tölublað (23.11.2005) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. ágúst 2023.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 Hanna Hjartardóttir og Birna Sigurjónsdóttir (2016). „Menntamálastofnun: Ytra mat grunnskóla: Grenivíkurskóli Ytra mat 2016“ (PDF). Ytra mat unnið á vegum Menntamálastofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Grýtubakkahrepp. Sótt 9. ágúst 2023.
  8. Grenivíkurskóli. „Starfsmenn“. Grenivíkurskóli. Sótt 10. ágúst 2023.
  9. Grenivíkurskóli. „Grunnþættir menntunar“. Grenivíkurskóli. Sótt 10. ágúst 2023.
  10. Grenivík. „Grunnskóli“. Grenivík. Sótt 10. ágúst 2023.