Fara í innihald

Admiral Graf Spee

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Graf Spee)

Admiral Graf Spee var þýskt panzerschiff eða þungvopnað beitiskip sem Þjóðverjar notuðu í upphafi Seinni heimsstyrjaldarinnar. Graf Spee var búið afar stórum byssum miðað við stærð (28 sentímetra byssum). Ástæðan fyrir lítilli stærð þess voru þær takmarkanir sem settar voru á hergagnaframleiðslu Þjóðverja í Versalasamningnum, en samkvæmt þeim máttu þýsk herskip hvorki fara yfir 10.000 tonn né vera búin stærri byssum en 280 millímetra. Af þessum sökum kölluðu Bretar skipið, ásamt tveimur systurskipum þess, Deutschland (síðar endurnefnt Lützow) og Admiral Scheer, pocket battleships. Graf Spee er eitt frægasta orrustuskip Þjóðverja, ásamt Bismarck.

Skipinu var hleypt af stokkunum árið 1934 og nefnt eftir aðmírálnum Graf Maximilian von Spee sem lést ásamt tveimur sonum sínum í fyrstu orrustunni um Falklandseyjar þann 8. desember 1914. Það var jafnframt annað þýska skipið til að vera nefnt eftir honum, það fyrsta SMS Graf Spee sem var smíðað í Fyrri heimsstyrjöldinni en aldrei notað.