Geymd
Heimildir skortir fyrir staðhæfingum í þessari grein. Ef þú vilt bæta við heimild vinsamlegast bættu þeim við undir nýrri fyrirsögn („Heimildir“) eða skildu eftir athugasemd á spjallsíðunni. |
Geymd er eitt þriggja minnisþrepa í kenningum um minni. Geymdin er hið eiginlega minni og getur verið með margvíslegu móti og fer það eftir aðstæðum hversu traust hún er. Ef minnisatriði, t.d. nafn einstaklings, fer inn í langtímaminni getum við sótt það og nefnt viðkomandi á nafn næst þegar við sjáum hann eða hann berst í tal. Ef nafn hans hefur aðeins komið við í skammtímaminninu getum við nefnt viðkomandi á nafn t.d. meðan á samtali við hann eða umræðu um hann stendur en gleymum því síðan.
Geymd í skammtímaminni og langtímaminni getur verið með þrennum hætti:
- Sjóngeymd: útlit bókstafa og orða vaðrveitist.
- Merkingargeymd: merking orðanna er geymd
- Hljóðgeymd: þegar framburður orða og bókstafa varðveitist.
Rannsóknir benda til þess að orð hljóti hljóðgeymd í skammtímaminni þ.e.a.s. þegar kemur að því að muna orð eða bókstafi notist skammtímaminni við framburð þeirra. Minnisvillur í skammtímaminni eru einkum af hljóðrænum toga og tengjast framburði orða.
Í langtímaminni er hins vegar algengast að orð hljóti merkingargeymd. Rannsóknir sýna að ef þáttakendur fá nægan tíma til umskrá orðin yfir í langtímaminnið er algengast að þeir rugli saman orðum sem hafa svipaða merkingu, t.d. blað og pappír, refur og úlfur, öskutunna og ruslakarfa. Hins vegar er geymd í langtímaminni ekki alltaf merkingarleg og skammtímaminni notast ekki alltaf hljóðgeymd.
Sjón, bragð og lykt geta markað varanleg minnisspor í langtímaminninu. Geymd í langtímaminni getur því tekið á sig ýmsar myndir og rannsóknir sýna að langtímaminnið reiðir sig líka á sjóngeymd.