Gó
Gó (e. Go) er borðspil sem tveir spila. Það er kallað wéiqí á kínversku (hefðbundin kínverska: 圍棋; einfölduð kínverska: 围棋), igo (囲碁) eða go (碁) á japönsku, og baduk á kóresku (hangúl: 바둑). Spilið á uppruna sinn í Kína löngu áður en elstu ritheimildir á 5. öld f.Kr. geta þess. Það er vinsælast í Austur-Asíu, en hefur á síðari árum notið nokkurra vinsælda annars staðar líka. Leikmenn skiptast á að spila steinum í sínum lit, annaðhvort svörtum eða hvítum, á leikborð. Markmið leiksinns er að safna stigum sem fást annars vegar með því að umkringja "landsvæði" og hinsvegar með því að umkringja steina andstæðingsinns og þannig breyta þeim í "fanga". Sá leikmaður sem hefur stærsta landsvæðið samanlagt við fjölda fanga vinnur leikinn. Gó er þekkt fyrir að vera taktískt flókið spil þrátt fyrir einfaldar reglur.
Gó spilað af tölvum
[breyta | breyta frumkóða]Gó er talið erfiðara en skák, alla vega tókst tölvum mun síðar að ná yfirburðum yfir mönnum í þeirri grein. Það tókst með AlphaGo gervigreindarforritinu frá Google, sem síðar var endurbætt í AlphaGo Zero, og svo útvíkkað í þriðju útgáfunni undir nafninu Alpha Zero yfir í forrit sem getur lært og spilað marga sams konar leiki (þ.e. allar upplýsingar eru þekktar á borðinu), m.a. gó og skák og vinnur fólk þeim (og aðrar skáktölvur/forrit). Ólíkt hefðbundum skákforritum, notast þessi forrit við annars vegar tauganet og líka svokallaða Monte-Carlo trjáaleit (e. Monte-Carlo tree search, MCTS).
Reglur
[breyta | breyta frumkóða]Gó er oftast spilað á leikborði sem samanstendur af nítján láréttum línum og nítján láréttum línum sem kallast goban á japönsku (棋盤, qípán á kínversku). Leikmenn velja sér lit, svartan eða hvítan, í byrjun leiks eru engir steinar á borðinu. Svartur byrjar og skiptast svo leikmenn á að spila steinum í sínum lit á einn af þrjú hundruð sextíu og einn mögulegan skurðpunkt línana. Skurðpunktur fjórðu, tíundu og sextándu línana kallast stjörnupunktar. Leikmenn mega sleppa því að spila steini. Þegar búið er að leggja stein á borðið þá mun steinninn annaðhvort:
- Vera á sama stað þar til leikurinn endar
- eða breytast í "fanga" og þar með tekinn af leikborðinu.