Félag íslenskra myndlistarmanna
Félag íslenskra myndlistarmanna (skammstafað FÍM) var stofnað sem aðildarfélag að Bandalagi íslenskra listamanna þegar það breytti um skipulag árið 1941. Fyrsti formaður þess var Jón Þorleifsson. Félagið var helsta hagsmunafélag myndlistarmanna á Íslandi næstu áratugi, en var oft gagnrýnt fyrir að vera lokað félag og sinna ekki hagsmunum allra myndlistarmanna. Þetta gerðist meðal annars við stofnun Nýja myndlistarfélagsins 1952 (myndlistarmenn sem ekki fengust við abstraktlist og þótti framhjá sér gengið í FÍM), við stofnun SÚM (Sýningarsamtök úngra myndlistarmanna) 1965, og við stofnun Íslenskrar grafíkur 1969 og Myndhöggvarafélagsins 1972. Árið 1982 var ákveðið að stofna Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) sem tók við aðild FÍM að Bandalagi íslenskra listamanna.