Friedrich Fröbel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Friedrich Wilhelm August Fröbel

Friedrich Wilhelm August Fröbel (f. 21. apríl 1782 – d. 21. júní 1852) rak fyrsta skóla sinnar tegundar og var oft nefndur faðir leikskólans. Skólinn var ætlaður leikskólakennaranemum en hann hóf starfsemi sína árið 1839 í Þýskalandi. Fröbel kallaði skóla sinn Barnagarð þar sem hann vildi að börnin hefðu aldingarð til að leika sér í og gætu skoðað náttúruna. Fröbel líkti börnum sínum við plöntur í garðinum, sem þarf hita, sólskin og raka til að dafna og að börnin þyrftu að njóta ástúðar og gleði til að geta þrifist. Aðalþættir í skóla Fröbels var skemmtun og leikir sem hann vildi að börnin gætu notið bernsku sinnar og sem mestrar hamingju. Hann taldi leiki vekja áhuga barnanna á hlutunum í kringum þau, auka skilning þeirra og sköpunarafl og jafnframt auka sjónarsvið þeirra.

Fröbel lagði mesta áherslu á gildi leiks og skemmtunar framar öðrum uppeldisfræðingum. Það má segja að Fröbel hafi á vissan hátt stýrt leik barna, þar sem hann bjó til leikföng eða svo kallaðar „gjafir“ og voru þessar leikgjafir alls tíu. Með því að leika með gjafirnar á ýmsa vegu taldi Fröbel að börnin myndu öðlast þekkingarfæðilega innsýn á náttúrulegan hátt. Markmiðið með gjöfum Fröbels var að veita börnum þekkingu á heiminum ásamt því að tákna form náttúrunnar, veita þekkingu um hana og hafa visst fagurfræðilegt gildi. Fröbel taldi að þegar börn kæmust í snertingu við náttúruna, hefðu eitthvað fyrir stafni, nytu væntumþykju og önnuðust aðra, fengju þau fyrstu innsýn í ábyrgð og skyldur.

Fröbel lagði mikla áherslu á náttúruna og má þar nefna að plöntur og dýr voru háttskrifaðar hjá honum. Einnig vildi Fröbel að börnin ræktuðu sitt eigið blóma- eða plöntubeð. Með þessu taldi hann að börnin lærðu að þekkja tegundir og á sama tíma örvaðist læsi þeirra þar sem allar plönturnar voru merktar með nöfnum. Augsýnilegt er að Fröbel lagði mikla áherslu á leik barna, útveru þeirra og tengsl við náttúru, þar sem þessir þættir stuðli samtímis að auknum þroska barna.