Fremri-Kot
Fremri-Kot er innsta býli í Norðurárdal við rætur Öxnadalsheiðar. Áður nefndist býlið Hökustaðir og er þess getið í Landnámabók, þar sem Örreksheiði upp frá Hökustöðum er sögð kennd við landnámsmanninn Þorbrand örrek. Örnefnið Örreksheiði er nú óþekkt.
Hökustaða er einnig getið í Sturlungu því þangað kom Eyjólfur ofsi Þorsteinsson með lið sitt á leið til Flugumýrarbrennu haustið 1253 og setti þar gæslumenn svo ekki bærist njósn þaðan um komu brennumanna. Þorgils skarði Böðvarsson kom líka við þar á leið til bardagans á Þveráreyrum 1255. Líklega breyttust nöfn Hökustaða og Þorbrandsstaða ekki í Fremri-Kot og Ytri-Kot fyrr en á 16. eða 17. öld, hugsanlega í kjölfar skriðufalla sem gætu hafa lagt jarðirnar í eyði um skeið.
Mikil skriðuföll urðu svo í Norðurárdal 6. júlí 1954 eftir stórrigningar sem gengið höfðu yfir sólarhringinn á undan. Margar skriður féllu þá á land Fremri-Kota, eyðilögðu stærstan hluta túnsins og eyddu fjárhúsi og hlöðu, hesthúsi og haughúsi. Mikill hluti þjóðvegarins eyðilagðist einnig og Valagilsá, sem rennur á landamerkjum Kota og Silfrastaðaafréttar, sópaði af sér brúnni og ruddi burt varnargarði. Húsfreyjan á Fremri-Kotum var ein heima með fimm ung börn og ætlaði hún að leita skjóls með þau í fjárhúsinu, sem hún taldi á öruggari stað en bæjarhúsið, og var komin með þau út á hlað en þá kom mikil skriða sem staðnæmdist rétt ofan við íbúðarhúsið og skemmdist það ekki, en fjárhúsið sópaðist burtu.
Systkinin og skáldin Ólína Jónasdóttir (1885-1956), Hallgrímur Jónasson (1894-1991) kennari og Frímann Ágúst Jónasson (1901-1988) skólastjóri voru alin upp á Fremri-Kotum og kennd við bæinn.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Norðurferðir:Norðurárdalur“.
- „Morgunblaðið: Minning: Frímann Ágúst Jónasson“.
- Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}