Fara í innihald

Fimmliðaháttur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Fimmtarbragur)

Fimmliðaháttur er forngrískur órímaður bragarháttur. Hann hefur einnig verið nefndur pentametur eða fimmtarbragur á íslensku.

Braglína fimmliðaháttarins skiptist í tvo hluta með braghvíld á milli. Í hvorum hluta eru tveir réttir þríliðir og eitt sérstakt áhersluatkvæði (stúfur). Fimmliðaháttur myndar distíkon ásamt hexametri en er aldrei sjálfstæður bragarháttur.

Hér er dæmi um atkvæðaskiptingu fimmliðaháttarins: (Ath: S stendur fyrir sterka áherslu, v fyrir veika áherslu):

Ásmundur,/ Einar og / Jón /|/  Ingólfur/, Halldór og / Sveinn.

S v v    / S v v     / S / | / S v v   / S v v       / S.

Þessi línugerð kemur aðeins við sögu í bragarhætti þeim sem kallast distíkon eða elegískur háttur. Heitið distíkon (tvíhenda) stafar af því, að þar standa saman tvær ljóðlínur, sú fyrri daktílskt hexametur og hin síðari pentametur.

Fimmliðahætti má lýsa sem hexameturs-ljóðlínu þar sem áhersluveiku atkvæðin hafa verið stýfð aftan af 3. og 6. braglið og línan síðan sögð vera tvisvar tveir og hálfur bragliður, samtals fimm bragliðir. Annar stýfði liðurinn (Jón) kemur þá næst á undan rofinu, og hinn (Sveinn) í línulok.

Frægasta kvæði, sem ort er á íslensku undir elegískum hætti, er án efa ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Ísland.

Ísland! / farsælda- / frón | og/ hagsælda / hrímhvíta / móðir!

SS   /  Svv   / S | v   / Svv    / Svv     /Sv

''Hvar er þín / fornaldar-/ frægð/ | / frelsið og /manndáðin / best?

Svv  / Svv  / S   / | /  Svv    / Svv     / S

Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðis hetjurnar góðu,
austanum hyldýpis haf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
jukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þarsem ennþá Öxará rennur
ofaní Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héröð, og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim.
Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munar
annaðhvort afturábak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sexhundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna frammeftir veg?
Landið er fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
Enn á eldhrauni upp, þar sem Öxará rennur
ofaní Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur, og lingið á lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó þér unglinga fjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.