Erwin Rommel
Erwin Johannes Eugen Rommel (15. nóvember 1891 – 14. október 1944) var þýskur hershöfðingi. Rommel tók þátt seinni heimsstyrjöldinni í bardögum í orrustunni um Frakkland, í eyðimerkurstríðinu í Norður-Afríku og í vörn Þjóðverja gegn innrás bandamanna í Normandí.
Rommel er þekktastur fyrir þátt sinn í eyðimerkurstríðinu, þar sem hann stjórnaði herafla Þjóðverja, Afrika korps. Í eyðimörkinni sannaði hann sig sem einn hæfasti hershöfðingi Þjóðverja í stríðinu og hlaut fyrir vikið viðurnefnið eyðimerkurrefurinn. Fyrst eftir komu sína til Afríku sótti Rommel, með her sínum, hratt yfir eyðimörkina í Líbýu og inn á yfirráðasvæði Breta í Egyptalandi. Þýski herinn var stöðvaður við El-Alamein í Egyptalandi, árið 1942, og í kjölfarið hóf Rommel undanhald með herafla sinn, undan breska áttunda hernum sem stjórnað var af Bernard Montgomery. Í mars 1943 var Rommel leystur undan herstjórn í Afríku og tveimur mánuðum síðar gafst her Þjóðverja þar upp.
Rommel stjórnaði undirbúningi og aðgerðum Þjóðverja gegn innrásinni í Normandí árið 1944. Sama ár tók Rommel þátt í mislukkuðu samsæri um morð á Adolf Hitler og valdarán í kjölfarið. Eftir að upp komst um þátt Rommels í samsærinu fékk hann að velja hvort hann myndi svara fyrir sakirnar í réttarhöldum eða fremja sjálfsmorð. Rommel kaus síðari kostinn, ekki síst vegna þess að þá var honum lofað að fjölskylda hans fengi að lifa óáreitt. Þann 14. október 1944 framdi hann sjálfsmorð með því að taka inn blásýrutöflu.
Rommel hefur notið meiri virðingar en flestir aðrir þýskir hershöfðingjar undir nasistastjórninni, enda var hann um margt frábrugðinn starfsbræðrum sínum; Rommel gekk aldrei í nasistaflokkinn, hersveitir hans í Afríku voru aldrei sakaðar um stríðsglæpi og hann neitaði að taka gyðinga, sem hann hafði tekið sem stríðsfanga, af lífi.