Ellen Clapsaddle
Ellen Hattie Clapsaddle (8. janúar 1865 – 7. janúar 1934) var bandarískur teiknari. Hún er sérstaklega þekkt fyrir póstkortamyndir, gjarna af litlum börnum. Hún var ógift og barnlaus. Ellen fæddist í sveitahéraði í New York-fylki. Hún fékk ung skólastyrk til listnáms í einkaskólanum Cooper Union í New York. Eftir nám þar setti hún auglýsingu í dagblað þar sem hún bauð einkakennslu í teiknun og málun á heimili sínu. Hún teiknaði portretmyndir af fjölskyldum og seldi myndir í auglýsingar og sem skreytingar á hluti eins og leirtau, dagatöl og póstkort. Á þessum tíma voru póstkort sem fólk safnaði sem minjagripum mjög vinsæl en gullaldartími póstkorta var á árunum 1898 – 1915. Það liggur mikið magn verka eftir Ellen Clapsaddle af slíkum kortum og minjagripum en yfir þrjú þúsund verk eru merkt henni. Á meira en helmingi þeirra verka eru myndir af sakleysislegum litlum börnum. Hún gerði mörg verk tengd Valentínusardegi, Degi heilags Patreks, 4. júlí, Hrekkjavöku og Jólum.
Árið 1901 bauð útgáfufyrirtæki Wolf bræðra Ellen og móður hennar til Þýskalands til að vinna þar í tvö ár. Á þessum tíma var Þýskaland miðstöð prentiðnaðar og margir útgefendur í Bandaríkjunum létu prenta prentgripi þar sem síðan voru fluttir með skipi til Bandaríkjanna. Ellen Clapsaddle var fyrsta konan og sú eina af póstkortateiknurum þess tíma til að stofna eigið fyrirtæki en hún stofnaði fyrirtæki Wolf Company, sennilega með stuðningi Wolf bræðra sem áttu kortaútgáfufyrirtæki í Bandaríkjunum sem seldi kort sem Clapsaddle gerði. Clapsaddle kom aftur til New York árið 1906 og í átta ár var mikill uppgangur hjá henni og Wolf bræðrum. Hún hagnaðist vel og fjárfesti í þýskum prentfyrirtækjum. Hún sneri svo aftur til Þýskalands.
Árið 1914 braust Fyrri heimsstyrjöldin út. Flest póstkorta- og minjagripafyrirtæki í Bandaríkjunum voru á þessum tíma háð vörum frá birgjum í Þýskalandi og þar sem tengslin rofnuðu þá algjörlega þá urðu fyrirtækin að hætta rekstri. Margar þýskar prentsmiðjur eyðilögðust í loftárásum og öll frumrit af nýjustu verkum Clapsaddle eyðilögðust og hún tapaði fé þegar prentsmiðjur eyðilögðust eða urðu að hætta rekstri. Á árunum 1914 til 1919 var hún föst í Þýskalandi og komst ekki úr landi. Clapsaddle missti aleigu sína og týndist.
Wolf bræður fóru að stríðinu loknu árið 1919 að grennslast fyrir um afdrif hennar og fundu hana eftir sex mánaða leit. Hún var hugstola og allslaus og ráfaði um stræti svöng og veik og hafði misst lífslöngun og rænu en hún var þá aðeins 55 ára gömul. Hún var í mjög litlu sambandi við umhverfi sitt og þekkti varla Wolf bræður aftur. Þeir fóru með hana til Bandaríkjanna og hlúðu að henni en þegar þeir féllu frá þá varð hún vistmaður á hælinu Peabody Home for the elderly and destitute í New York borg og dó þar degi fyrir 69 ára afmælisdag sinn.